„Maður heyrir það alveg að ef það er ömurlegur matur þá er ekkert gaman,“ segir Ragnar Jakob Kristinsson, kokkur um borð í Baldvin Njálssyni, inntur eftir hvort það sé rétt sem sagt er að mikilvægasti maðurinn í hverri áhöfn sé kokkurinn.
„Það er náttúrlega ekkert að gerast og þeir segja það strákarnir að þeir hlakki til að koma að borða,“ segir Ragnar sem er í löngu viðtali í jólablaði Fiskifrétta.
Þegar rætt er við Ragnar í nóvember eru sex dagar eftir af yfir mánaðarlöngu úthaldi. Hann er að skipuleggja tilbreytingu fyrir félagana næsta sunnudag enda síðasti túr þessarar áhafnar fyrir jól.
Efldi móralinn með jólahlaðborði
„Maður verður auðvitað að passa sig að vera ekki með hamborgarhrygg. Í fyrra var ég hér í desember og þá gerði ég jólahlaðborð. Og ég ætla að vera með það á sunnudaginn, bara til að efla móralinn, að hafa smávegis jólaívaf, vera með hlaðborð, baka smákökur og setja upp jólaseríu í gamni,“ segir Ragnar sem stóð auðvitað við þessi fyrirheit.
Áhafnir fiskiskipa eru oftast í landi yfir jólin svo Ragnar og félagar komast til síns fólks yfir hátíðarnar. Fyrir þremur árum var hann hins vegar í fraktsiglingum á Arnarfellinu yfir jól. Hann segist ekki geta svarað því hvar skipið var statt á aðfangadagskvöld í það skipti.
„Ég man ekki einu sinni hvar, þetta rennur allt í eitt,“ játar kokkurinn sem auðvitað var upptekinn í eldhúsinu þennan dag.
Tveir messar á fraktaranum
„Það er rosalega misjafnt eftir skipum,“ segir Ragnar aðspurður um stemninguna um borð yfir jólin.
„Sums staðar klæða menn sig upp og annars staðar ekki. Svo hafa verið gefnar jólagjafir frá kvenfélögum, sokkar eða slíkt,“ segir Ragnar sem kveður hátíðarstemninguna eiginlega hafa verið heldur lítilfjörlega á Arnarfelli þessi jól.
„Ég var með forrétt, aðalrétt og desert. Ég þurfti að elda úr eldhúsinu fyrir báða messana. Á mörgum skipum, eins og hjá Eimskip að minnsta kosti, er einn messi en þar voru tveir,“ segir Ragnar. Hann hafi séð á myndum frá öðrum skipum að þar fari skipstjórinn í skrúða og allt sé miklu formlegra um jólin.
Var of rólegt fyrir Ragnar
„Þetta fer eftir skipum og móral en þarna var ekki gert neitt. Menn hittust og það voru afhentir pakkarnir frá kvenfélaginu og svo fóru bara allir inn til sín,“ segir Ragnar. Engir jólasálmar hafi verið sungnir. „Og það var ekki heldur lesið upp úr orðinu.“
Meira er rætt við Ragnar Jakob Kristinsson í jólablaði Fiskifrétta.