Dráttarbáturinn gamli Magni II liggur enn í Reykjavíkurhöfn þar sem félagar í Hollvinasamtökum Magna hafa í gegnum árin tekið hænuskref í að gera hann upp, eins og Böðvar Eggertsson, einn stjórnarmanna í samtökunum orðar það.
Magni var sjósettur fyrir sjötíu árum, þann 15. október 1954 og var tekin úr þjónustu 1987 eftir að vél hans bræddi úr sér.
„Við erum búnir að þétta hann þannig að hann er ekki lekur,“ svarar Böðvar spurður hvað hafi verið á döfinni með Magna að undanförnu. Í ljós hafi komið meiri leki á yfirbyggingu bátsins en þeim hafi sýnst. Gúmmí á gluggum hafi verið orðin morkin og farin að leka og járn á mörkum áls og stáls orðið upp étið. „Það hefur aðal púðrið farið í þetta.“
Ásýndin mikilvæg
Ekki síður segir Böðvar þó áherslu hafa verið lagða á að afa ásýnd Magna í lagi því hún skipti miklu máli. „Ég hef lagt upp úr því í gegnum tíðina að „lúkkið“ sé til staðar,“ segir hann. Ætlunin sé síðan með tímanum að gera Magna gangfæran.
„Við fengum vél frá Danmörku. Hún kom eiginlega upp í hendurnar á okkur allt of fljótt, en hún bauðst og þá varð bara að hoppa á það,“ segir Böðvar. Standsetning á vélinni krefjist mikillar vinnu og hún sé ekki endilega fremst á verkefnalistanum.
„Það horfir margra ára vinna við og það er svo margt sem þarf að gerast áður en kemur að vélinni. Það sem skiptir máli núna er að ásýndin sé þannig að menn horfi á bátinn og segi: Vá, hvað hann er flottur. Og þetta er fallegur bátur, það er engin spurning.“
Fá svipað hlutverk og Húni á Akureyri
Þannig að fyrir utan að halda útlitinu á Magna í lagi segir Böðvar að vinna þurfi hægt og bítandi að öðrum þáttum. „Maður gerði sér grein fyrir því strax í upphafi að þetta væri mikið langhlaup því báturinn var það illa farinn þegar við byrjuðum,“ segir hann.
Það er því enn langt í að Magni verði endanlega uppgerður. „Draumurinn er svipað konsept og Húni er að gera á Akureyri. Hvort það er praktískt veit ég ekki. Fyrir mér hefur Magni sögulegt gildi fyrir Íslendinga og markmið númer eitt, tvö og þrjú er náttúrlega að varðveita eintakið.“
Sjósettur fyrir sjötíu árum
Í styrkumsókn Hollvinasamtaka Magna til Faxaflóahafna fyrir nokkrum árum er saga skipsins rakin. Eftirfarandi er meðal þess sem þar kemur fram:
Hjálmar R. Bárðarson hannaði dráttarbátinn Magna fyrir Reykjavíkurhöfn. Ásamt því að vera dráttarbátur með tilheyrandi búnaði, var hann einnig ísbrjótur fyrir lagnarís. Góðar vistarverur voru fyrir áhöfnina og sjúkraklefi til að taka við sjúklingi í börum. Frumteikningar og smíðalýsing lágu fyrir í ársbyrjun 1951. Kjölurinn á Magna var lagður í lok árs 1953 og smíði skipsins hófst. Tímamótaviðburður varð í iðnsögu Íslands 15. október 1954 er báturinn var sjósettur.
Bræddi úr sér fyrir mistök
Magni var afhentur Reykjavíkurhöfn við hátíðlega athöfn 25. júní 1955. Eitt af fyrstu verkefnum Magna var að taka á móti Gullfossi. Árið 1987 var seinasta árið sem Magni var í rekstri. Í ferð til Hvalfjarðar var fyrir mistök lokað fyrir smurolíukæli sem olli því að aðalvél skipsins bræddi úr sér. Magna var lagt í kjölfar þess