Vestmannaeyjabær og HS Veitur hafa sent Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og tryggingafélagi fyrirtækisins kröfubréf þar sem farið er fram á að tjón sem varð á vatnslögninni til Eyja verði að fullu bætt. Mál verði höfðað verði ekki orðið við kröfunni.

„Eins og staðan er í dag er áætlað heildartjón á bilinu 1.380-1.485 milljónir króna,“ segir í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja. Þar kemur fram að Vinnslustöðinni sé nú aftur boðið upp á að ræða bótakröfu áður en málshöfðun fer af stað, en því hafi verið hafnað á fyrri stigum.

Hlutverk bæjarstjórnar að gæta hagsmuna íbúa

„Það er hlutverk bæjarstjórnar að reyna eftir fremsta megni að tryggja það að tjónið lendi ekki á íbúum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum sem notendum vatnsveitunnar,“ tekur bæjarráðið fram og yfir vonbrigðum með það að Vinnslustöðin hafi „ekki viljað samtal um sanngjarnar bætur fyrir það tjón sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir og þá stöðu sem upp er komin,“ eins og segir í fundargerðinni.

„Því er þetta eina leið Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna til að fá tjónið bætt svo að það lendi ekki á notendum vatnsveitunnar í Eyjum, það er íbúum og fyrirtækjum. Enn hefur félagið tækifæri til að taka samtalið,“ segir bæjarráð Vestmannaeyja.

Vatnslögnin laskaðist eftir að akkeri skips Vinnslustöðvarinnar kræktist í hana í nóvember síðastliðnum.