Hafnfirðingar og aðrir sem hafa átt leið niður að Hafnarfjarðarhöfn áttu þess kost í gær að fylgjast með hnúfubökum í höfninni í fimbulkuldanum sem nú ríkir. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir að líklegast sé að smásíld hafi gengið í höfnina sem selir og hnúfubakar hafa gætt sér á, en um leið hefur heimsókn þeirra glatt vegfarendur við höfnina. Ekki síst starfsfólk Hafrannsóknastofnunar, sem eðli málsins samkvæmt er óvenju áhugasamt um lífríki sjávar.
Á myndinni má sjá hnúfubak dóla sér í höfninni, en hnúfubakur er sú hvalategund sem jafnan vekur mestu athygli meðal almennings einkum sökum atferli síns. Vitað er að þeir ferðast langar vegalengdir ár hvert frá heitum sjó í karabíska hafinu eða vesturströnd Afríku þar sem kálfar þeirra fæðast, norður á fæðuslóðir, t.d. við Ísland, Grænland, Noreg og Kanada. Lesa má nánar um hnúfubaka á vef Hafrannsóknastofnunar.