Þorskur mun örugglega hætta að hrygna í Keltahafi, hafsvæðinu úti fyrir ströndu Suður-Írlands og Wales, Bristolflóa og Ermarsundi á næstu áratugum verði loftlagsbreytingar með sama takti og verið hefur. Loftlagsbreytingarnar munu líklega einnig breyta hrygningarmynstri þorsks við Noregsstrendur. Þetta kemur fram í nýrri alþjóðlegri rannsókn, eftir því sem fram kemur á heimasíðu hafrannsóknastofnunarinnar í Noregi.

Hlýrri sjór í Írlandshafi ógnar einnig lífsskilyrðum þorsks en þó er talið að lengri tími muni líða þar til þorskurinn þar leiti norðar í kaldari sjó.

Sjávarvísindamenn hafa komist að því með rannsóknum á eldisþorski og merkingum á villtum fiski, að þorskur hefur innbyggð afar nákvæm efri hitamörk sem tengjast hrygningu tegundarinnar.

„Á þeim svæðum sem sjávarhitinn verður of hár verða áhrifin á þorskstofna mjög mikil,“ segir Olav Sigurd Kjesbu, sérfræðingur hjá norsku hafrannsóknastofnuninni.

Meira streð hrygingarstofnsins

Hlýnun sjávar hefur þau áhrif á þorskstofninn í Barentshafi sem hrygnir að hluta til við Noreg, svokölluð skrei, að hann gæti farið um mun stærra hafsvæði í fæðuleit, í sumum tilvikum allt upp undir 80° norðlægrar breiddar.

Það þýðir að tegundin þyrfti þá að fara mun lengri leið til að hrygna við strendur Noregs. Því norðar sem hann heldur í fæðuleit á haustin því lengra tekur það hann að koma inn til hrygningar við norskar strendur eins og við Lófóten. Þorskurinn í Barentshafi þyrfti því að aðlagast lengra en líka hraðara mynstri í hrygningu,“ segir Kjesbu.

Ekki liggur ljóst fyrir hvaða afleiðing þróun af þessu tagi getur haft á hrygningarstofninn. Sjávarvísindamenn telja þó víst að breytt mynstur við fæðuleit norðar í Barentshafi útheimti mikla orku sem geti haft þær afleiðingar að hrygningartíminn breytist verulega.