Nýjar áskoranir vegna sjávarlúsasmits undirstrika brýna nauðsyn á strangari reglugerðum og öflugri framfylgd þeirra í fiskeldi á Íslandi,“ segir í nýrri skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um vöktun sjávarlúsa á Vestfjörðum í fyrra.
Rannsókn á villtum laxfiskum á Vestfjörðum sem skýrslan byggir á er sögð hafa leitt í ljós verulegan breytileika í magni lúsa milli mánaða og svæða sem sýni mikilvæg áhrif umhverfisþátta á borð við vatnshita.
Sterk fylgni milli lúsa á villtum fiski og eldisfiski kalli á viðbrögð
„Sterk fylgni á milli lúsamagns á villtum fiski og eldisfiski undirstrikar enn fremur mikilvægi heildstæðra stjórnunaráætlana fyrir bæði fiskeldi og vistkerfin í kringum það,“ segir í skýrslunni. Til að vernda villta laxfiskastofna og styðja við sjálfbært fiskeldi sé nauðsynlegt að hafa framsýni að leiðarljósi.
„Í því felst notkun háþróaðra vöktunarkerfa og forspárlíkana til að skilja betur útbreiðslumynstur sjávarlúsarinnar. Þróun og innleiðing annarra vistvænna meðferða verður lykillinn að því að takast á við tvíþætta áskorun; hækkandi lúsamagn og umhverfisvernd á tímum loftslagsbreytinga,“ segir í skýrslunni.
Skýrsluhöfundar segja laxeldisiðnaðinn standa frammi fyrir víðfeðmum áskorunum vegna fjölda sjávarlúsasmita sem hafi skaðleg áhrif á velferð og heilsu bæði eldislaxa og villtra laxfiska.
Smit nærri sjókvíum
Í rannsókninni voru veiddir 174 villtir laxfiskar. Alls 4.722 lýs hafi fundust á um 70 prósent þeirra fiska. Töluverður breytileiki hafi verið í magni sjávarlúsa eftir mánuðum og sýnatökustöðum. Niðurstöður bendi til að vatnshiti sé sterkur drifkraftur fyrir magn sjávarlúsa á villtum laxfiskum.
„Gögnin sýndu enn fremur sterka fylgni á milli lúsamagns á villtum fiski og magns fullorðinna kvenkyns laxalúsa í nærliggjandi fiskeldisstöðvum. Marktækt fleiri smittilvik fundust í villtum fiski frá svæðum þar sem hátt magn fiskilúsa fannst í fiskeldisstöðvum, sérstaklega þegar heimkynni þeirra voru nálægt netakvíum,“ segir í skýrslunni.
Aukin þörf er sögð á betri stjórnunaraðferðum sem dregið geta úr áhrifum laxalúsar á villtan fisk. Setja þurfi strangari reglur um magn lúsa í eldisstöðvum, bæta eftirlitskerfi og þróa nýjar eftirlitsaðferðir. „Þess háttar aðgerðir eru nauðsynlegar ef vernda á heilsu bæði villtra fiska og eldisfiska en lágmarka um leið vistfræðilega áhættu af lúsasmiti.“