Vefurinn Loðnufréttir er kominn í loftið á ný og þar er grannt fylgst með yfirstandandi vertíð, rétt eins og gert var í fyrra. Ingvi Þór Georgsson ritstjóri hefur einnig haldið úti hlaðvarpsþáttum Loðnufrétta þar sem spjallað er um loðnuna og veiðarnar.
Hann segist hafa verið með þessa hugmynd í kollinum allt frá því hann byrjaði að vinna í sjávarútvegi fyrir um níu árum. Áður fyrr hafi loðnunni verið gert mun hærra undir höfði í fjölmiðlum. Vinnufélagar hans hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), sem nú heitir (SFS), hafi mikið talað um loðnuna.
Nú verða sagðar loðnufréttir
„Allar fréttir hjá RÚV byrjuðu á loðnufréttum hér í den. Svo hefur maður fundið það í gegnum tíðina að Fiskistofa er ekki vefur fyrir hinn almenna mann til að fara í gegnum og fá upplýsingar beint í æð, þannig að við hentum í þessa síðu í fyrra, og hún varð bara nokkuð vinsæl. Svo vorum við að senda út póst vikulega með helstu löndunum og hvernig þetta væri að þróast og höfðum það nokkuð myndrænt.“
Upplýsingar á síðunni eru byggðar á opinberum gögnum frá Fiskistofu og eru uppfærðar einu sinni á dag. Gögn um verðmæti byggja á gögnum Hagstofu og upplýsingum úr kynningum sjávarútvegsfyrirtækja.
Tafir á uppfærslu
Þegar ætlunin var að hefjast aftur handa á nýrri loðnuvertíð þurfti að uppfæra vefinn og einhverjar tafir urðu á þeirri vinnu. Það gekk þó allt saman upp þannig að vefurinn er aftur kominn í loftið, en á meðan beðið var brugðu þeir félagar á það ráð að senda út hlaðvarp.

„Við vildum sjá hvort ekki sé hægt að taka umræðuna upp á ennþá betra stig og segja aðeins frá allri verðmætasköpuninni.“Sjálfur er Ingvi Þór með annað hlaðvarp sem heitir Pyngjan ásamt félaga sínum, Arnari Þór Ólafssyni.
„Þar tókum við ársreikninga og reyndum að gera það skemmtilegt. Núna er maður að taka loðnuna og þetta vonandi tekur á sig fína mynd og hefur einhverja hlustun.“
Ingvi Þór heldur einnig úti Aflamiðlun, sem er kvótamiðlun og var upphaflega starfrækt innan SFS.
„Svo var hún lögð af innan SFS en ég hef verið með hana til hliðar. Þannig hefur maður verið í tengslum við útgerðarstjóra, skipstjóra og þennan heim allan síðan.“
Kvótamiðlun á undanhaldi
Hann segir viðskiptavinum kvótamiðlunar fara fækkandi eftir því sem samþjöppun í sjávarútvegi eykst.
„En meðan það gengur þá gengur það. Maður reynir bara að hugsa í lausnum í kringum bransann á meðan. Hlaðvarpið er ein leið til að gera eitthvað nýtt, og svo framsetning á gögnum og fleira.“
Í fyrsta hlaðvarpsþætti Loðnufrétta var tekin létt yfirferð á vertíðinni og síðan viðtal við Geir Zoega skipstjóra á Polar Amaroq. Í þætti tvö var farið yfir verðmætasköpun síðustu vertíðar, aflatölur og spáð í spilin fyrir komandi vertíð ásamt Arnari Þór Ólafssyni. Í þriðja þætti var svo viðtal við Friðleif Friðleifsson deildarstjóra hjá Iceland Seafood International.
Í næstu þáttum verða svo fleiri viðtöl við fólk sem stýrir hátæknivinnslum, markaðsmálum og tengdum iðnuðum til að kynnast því frá öllum hliðum hvernig loðnan hefur áhrif á efnahaginn, þjóðarsálina og sjávarútveg. Ísfell er helsti bakhjarl Loðnufrétta í ár og mun starfsmaður þeirra einnig koma og fræða hlustendur um veiðarfærin og af hverju helstu spekingar velta vöngum yfir hvort betra væri að vera á loðnuflotvörpu eða nót við veiðarnar.