Ljósafell SU 70 landaði um 60 tonnum af blönduðum afla á Fáskrúðsfirði á föstudag eftir fyrsta túr eftir slipp í Færeyjum. Svo var um kvöldið haldið upp á 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar sem á Loðnuvinnsluna í Fáskrúðsfirði að langstærstum hluta, og um leið 50 ára afmæli Ljósafells.
Ljósafell er einn af 10 svokölluðum Japanstogurum sem komu til landsins á árunum 1972-1973.
Á heimasíðu Loðnuvinnslunnar segir að Ljósafell sé afar gott sjóskip, það „veltur mikið og er lifandi, en menn eru nánast ávallt þurrir, enda ver skipið sig afskaplega vel.“
Hornsteinninn að velgengni
„Heimildarmynd var gerð um skipið af þessu tilefni og eru menn spenntir að sjá afraksturinn. Guðmundur Bergkvist sá um það verk, og kom hann með okkur einn túr i vor og myndaði og spjallaði við menn. Ljósafellið er hornsteinninn að því hvað fyrirtækið er í dag og samkvæmt heimildum síðuritara varð mikill viðsnúningur í rekstri Kaupfélagsins þegar Ljósafell kom, og svo síðar Hoffell sem var samskonar togari. Þess má geta að það skip er en til og er staðsett i Kína.“