Síðastliðinn laugardag sluppu 65 þúsund laxaseiði frá eldisstöð Mowi í Glomfirði í Noregi. Þetta hefur upplýsingastjóri fyrirtæksins, Ola Helge Hjetland, staðfest við norsku fréttasíðuna iLaks.
Í frétt iLaks segir að Mowi hafi tilkynnt um strok seiðanna um helgina. Þá hafi hins vegar verið sagt að málið snerist um tíu þúsund 120 gramma seiði en ekki 65 þúsund seiði með 115 gramma meðalvigt eins og síðar hafi komið á daginn.
Afar miður segir upplýsingastjórinn
Hjetland segir við iLaks að umfangsmikil aðgerð í samstarfi við sjómenn á svæðinu hafi verið sett í gang til að freista þess að ná laxaseiðunum. Einnig er haft eftir Hjetland að Mowi líti atburðinn mjög alvarlegum augum.
„Það er unnið kerfisbundið og hörðum höndum að því í öllu fyrirtækinu að koma í veg fyrir strok og þeim hefur fækkað mikið á síðustu árum. Þess vegna er það afar miður að við séum að upplifa atburði af þessu tagi,“ segir Hjetland við iLaks.