Hampiðjan hf. hefur undirritað samning um kaup á 75,1% hlut í indverska neta- og kaðlaframleiðslufyrirtækinu Kohinoor Ropes Pvt. Ltd. Kohinoor er einn stærsti framleiðandi neta og kaðla á Indlandi. Starfsmenn fyrirtækisins eru rúmlega 700 og starfsstöðvarnar eru þrjár, tvær neta- og kaðlaverksmiðjur í Selu og netaverkstæði í Jalna. Félagið er einnig með skrifstofu í Aurangabad.

Í heild verða starfsmenn samstæðu Hampiðjunnar um 2.700 eftir kaupin. Eigendur Kohinoor munu eiga áfram 24,9% hlut í fyrirtækinu en það hefur verið náinn samstarfsaðili samstæðu Hampiðjunnar um árabil. Samstæða Hampiðjunnar var stærsti einstaki viðskiptavinur fyrirtækisins í fyrra enda kemur stór hluti snúinna kaðla sem Hampiðjan notar frá Kohinoor. Samstarf hefur einnig verið mjög vaxandi í fiskeldistengdum vörum undanfarið, sérstaklega í framleiðslu á fiskeldiskvíum.

Kaðla- og netaverksmiðja Kohinoor í Selu en hún er um 35.000 m2.
Kaðla- og netaverksmiðja Kohinoor í Selu en hún er um 35.000 m2.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í frétt frá Hampiðjunni segir að fyrir fyrirtækið skapi þessi viðskipti mikla möguleika á hagræðingu í rekstri og sókn inn á nýja markaði. Virðiskeðja Hampiðjunnar, frá plastkornum til fullkomnustu flottrolla og fiskeldiskvía, breikkar við kaupin en þriðjungur af kaðlanotkun Hampiðjusamstæðunnar kemur í dag frá Kohinoor. Starfsemi Hampiðjunnar um allan heim mun opna nýjar söluleiðir fyrir vörur Kohinoor og bætir við það vöruúrval sem dótturfyrirtæki Hampiðjunnar bjóða í dag.

Með kaupunum á Kohinoor opnist möguleikar á að sækja inn á markaði sem ekki hafa verið aðgengilegir vegna fjarlægðar frá Evrópu og hás framleiðsluverðs þar. Þannig hefur Kohinoor náð athyglisverðum árangri í Chile, sem er annað stærsta framleiðslulandið á laxi á eftir Noregi, og aukið aðgengi verður að fiskeldismörkuðum í Mið-Austurlöndum þar sem dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, Mørenot Aquaculture, hefur einnig unnið að stórum fiskeldisverkefnum undanfarin ár. Þá eru tækifæri í Asíu og Eyjaálfu þar sem tvö dótturfyrirtæki Hampiðjunnar starfa, Hampidjan New Zealand og Hampidjan Australia.

Unnið að framleiðslku á fiskeldiskvíum í netaverkstæðinu í Jafna.
Unnið að framleiðslku á fiskeldiskvíum í netaverkstæðinu í Jafna.

„Kaupin á meirihlutanum í Kohinoor mun auka samkeppishæfni Hampiðjunnar með þeirri hagræðingu sem hægt er ná fram. Það er mikil tilhlökkun að vinna með þessu nýja dótturfélagi í framtíðinni og við væntum mikils af þessu samstarfi á næstu árum. Vöruframboð Kohinoor mun auka vöruúrval fyrirtækja Hampiðjunnar víða um heim og á sama tíma auka aðgengi Kohinoor að þeim mörkuðum, sem við störfum á nú þegar. Við getum nýtt þessa stöðu til að sækja inn á nýja og framandi markaði. Það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur í samstæðu Hampiðjunnar,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.