Byggt á áliti erlends sérfræðings og eigin mati Hafrannsóknarstofnunar á umsókn Rastar sjávarrannsóknastetur um rannsóknaleyfi vegna fyrirhugaðra tilrauna í Hvalfirði veitti stofnunin jákvæða umsögn þar sem engin gögn benda til annars en að möguleg áhrif á lífríki á svæðinu verði takmörkuð, tímabundin og bundin við þá staðsetningu þar sem efnið flæðir út í sjó. Að auki er vísindalegt gildi rannsóknarinnar talið hátt. Fjallað hefur verið talsvert um málið í fjölmiðlum og hlutur Hafrannsóknastofnunar verið gagnrýndur. Nú hefur stofnunin svarað gagnrýninni með eftirfarandi hætti.
„Ljóst er að afleiðingar loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar fyrir vistkerfi og samfélög manna verða alvarlegri eftir því sem styrkur koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti eykst. Í skýrslu sérfræðihóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar 2022 kom fram að ef loftslagsmarkmið flestra þjóða eiga að nást, er ekki nóg að draga úr útblæstri koldíoxíðs hratt heldur þurfi einnig að fara í aðgerðir til að fjarlæga koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Aðferðir sem fela í sér að fanga og farga kolefni eru margfalt kostnaðarsamari en að draga úr útblæstri og hafa lítið að segja í stóra samhenginu ef ekki er verulega dregið úr útblæstri. Áríðandi er þó að auka þekkingu á þeim.
Áhugi á nýtingu hafs
Hafið þekur um 71% af yfirborði jarðar og geymir um 60 sinnum meira kolefni en andrúmsloftið. Koldíoxíð flæðir á milli sjávar og andrúmslofts en aukin upptaka sjávar á koldíoxíði úr andrúmslofti er að valda súrnun sjávar.
Fram hafa komið margskonar hugmyndir að aðferðum sem fela í sér að nýta höf jarðar til að fanga og farga kolefni (mCDR, marine Carbon Dioxide Removal). Einn flokkur slíkra aðferða felur í sér að auka basavirkni sjávar (OAE, Ocean Alkalinity Enhancement). Þær aðferðir eru taldar vænlegri til árangurs en flestar aðrar sem lagðar hafa verið til.
Mikilvægt er að undirstrika að:
- Enn er ekki er til staðar nægileg þekking á virkni eða umhverfisáhrifum mCDR aðferða sem fela í sér að nýta höf, til að réttlætanlegt sé að beita þeim til að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti eða sjó.
- Nauðsynlegt er að fram fari öflugar rannsóknir á aðferðum sem ganga út á að nýta hafið til að fanga og farga koldíoxíði áður en að teknar eru ákvarðanir um að beita þeim á smáum eða stórum skala.
- Ef ítarlegar rannsóknir á slíkum aðferðum eru ekki framkvæmdar er hætta á því að ákvarðanir muni verða teknar um að leyfa starfsemi sem gengur út á að beita slíkum aðferðum, án þess að nægileg þekking sé til staðar.
- Ef rannsóknir sýna fram á að aðferðir virki, og vilji er til að beita þeim á stórum skala, er nauðsynlegt að þekkja vel til umhverfisáhrifa þeirra.
Um rannsóknir á vegum Rastar sjávarrannsóknaseturs í Hvalfirði
Nýverið óskaði Röst sjávarrannsóknasetur eftir rannsóknaleyfi til að prófa áhrif þess að bæta útþynntum basa, natríumhýdroxíð eða NaOH, út í sjó í Hvalfirði. Utanríkisráðuneytið óskaði eftir umsögn Hafrannsóknastofnunnar um umsóknina, en til að undirbyggja þá umsögn óskaði stofnunin eftir sérfræðiáliti frá erlendum sérfræðingi, Dr. Helen Findley. Óskað var eftir því að hún legði mat á vísindalegt gildi rannsóknarinnar og möguleg umhverfisáhrif hennar. Byggir umsögn Hafrannsóknastofnunar að miklu leiti á því áliti. Röst sjávarrannsóknasetur er óhagnaðardrifð fyrirtæki en einstaklingur sem starfar hjá Hafrannsóknastofnunun situr einnig í ráðgjafaráði Rastar. Starfsmaðurinn tók ekki þátt í gerð umsagnar Hafrannsóknastofnunnar.
Komið hefur fram gagnrýni á það að Hafrannsóknastofnun hafi þegið styrk frá Röst sjávarrannsóknasetri til að framkvæma rannsóknaverkefni sem meta grunnástand vistkerfis Hvalfjarðar. Þegar ákvörðun var tekin um að framkvæma þær rannsóknir var það gert með fyrirvara um að framtíðarmat stofnunarinnar á rannsóknum á vegum Rastar sjávarrannsóknaseturs eða tengdra aðila myndi vera óháð þátttöku í umræddum grunnrannsóknum.
Var það mat stofnunarinnar að ný þekking á vistkerfi Hvalfjarðar myndi nýtast stofnuninni og öðrum við að meta áhrif ýmiss konar starfsemi og framkvæmda í firðinum. Gögnin geta þannig bætt ráðgjöf stofnunarinnar sem miðar að því að teknar séu upplýstar ákvarðanir um starfsemi og framkvæmdir Í Hvalfirði, með það að markmiði að nýting svæðisins sé sjálfbær. Ljóst var að umfang þeirra rannsókna sem stofnunin taldi rétt að framkvæma í Hvalfirði væri mikið og að rannsóknir sem þessar væru ekki á færi annara aðila hérlendis en stofnunarinnar sjálfrar. Almennt telur stofnunin það jákvæða þróun ef aðrir aðilar en hún sjálf geti sinnt öflugum hafrannsóknum á Íslandi.
Byggt á sérfræðiáliti Dr. Helen Findley og eigin mati stofnunarinnar á málinu veitti stofnunin jákvæða umsögn um umsókn Rastar sjávarrannsóknaseturs þar sem engin gögn benda til annars en að möguleg áhrif á lífríki á svæðinu verða takmörkuð, tímabundin og bundin við þá staðsetningu þar sem efnið flæðir út í sjó. Að auki er vísindalegt gildi rannsóknarinnar talið hátt.“
Umsögn Hafrannsóknastofnunar um umsókn Rastar má sjá hér.