Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í nótt og landað var úr skipinu í morgun. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði hann hvernig veiðiferðin hefði gengið.
„Þetta gekk svona þokkalega. Aflinn var 75 tonn, mest þorskur og ýsa. Við fórum út á sunnudag en þá var leiðindaveður og við slóuðum á meðan það versta gekk yfir. Veiðar voru ekki hafnar fyrr en á mánudag. Í þessum túr vorum við aðallega á Gerpisflaki og Skrúðsgrunni. Það verður farið út aftur í dag að lokinni löndun og það verður síðasti túr ársins hjá okkur,” segir Þórhallur.