Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Afli skipsins var 112 tonn, mest þorskur og ýsa en einnig töluvert af karfa.

„Við byrjuðum á Glettinganesflakinu á meðan brælan var að líða undir lok en síðan var veitt í Litladýpi, við Herðablaðið og á Skrúðsgrunni. Við enduðum síðan í Lónsdýpinu í leit að ufsa og karfa en það gekk ekki sérlega vel. Veiðiferðin hófst í haugasjó en að því kom að við fengum sæmilegasta veður. Við gerum ráð fyrir að halda á svipaðar slóðir að löndun lokinni enda hefur verið mjög góð veiði á þeim miðum sem við vorum mest á í túrnum,“ sagði Þórhallur Jónsson skipstjóri í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gullver hélt á ný til veiða síðdegis í gær.