Rannsókn vísindamanna við norsku hafrannsóknastofnunina leiðir í ljós að gulldepla í norskum fjörðum, Norðursjónum og Biskajaflóa er rík af járni, seleni, sinki, a-vítamíni og omega- fitusýrum.

Gulldepla er miðsjávarfiskur af ætt silfurfiska og verður um 7 cm á lengd og því talsvert minni en loðna sem er yfirleitt rúmir 15-18 cm. Hann finnst við miðbaug, í Miðjarðarhafi og alla leið norður í Noregshaf. Gulldepla finnst líka allt í kringum Ísland og óvenjumikið var af henni veturna 2008 og 2009 við landið. 2009 fóru fram tilraunaveiðar og landaði Huginn VE þá um 800 tonnum af gulldeplu sem fóru í bræðslu.

Gulldeplan frá svæðunum þremur í rannsókn norsku hafrannsóknastofnunarinnar átti það sameiginlegt að vera rík af járni, sinki, sleni og a-vítamíni.

Sá munur var hins vegar á að gulldepla úr Biskajaflóa og Norðursjónum innihélt meira af þungmálminum kadmíum og yfir þeim mörkum sem ESB setur fyrir fisk til manneldis. Í norsku fjöðrunum fjórum var innihald kadmíums undir mörkum. Á öllum svæðunum var innihald kadmíums á hinn bóginn undir þeim mörkum sem sett eru fyrir fiskafóður. Niðurstöður vísindamannanna voru þær að með því að veiða gulldeplu til fóðurframleiðslu sé hægt að auka næringarinnihald fiskafóðurs mikið.

Gulldepla frá öllum svæðunum innihélt mikið magn omega-3 fitusýranna EPA og DHA, eða 6 til 20 milligrömm í hverju grammi. Það eru mun hærri gildi en það sem ESB hefur skilgreint sem matvæli með háu innihaldi omega-3 fitusýra.