Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leituðu til norsku lögfræðistofunnar Wikborg Rein um greiningu á helstu einkennum markaðar fyrir uppsjávarfisk í Noregi í kjölfar frumvarpsdraga íslenskra stjórnvalda þar sem stefnt er að breytingu á veiðigjöldum hér á landi. Samkvæmt frumvarpsdrögunum skal miða veiðigjöld á uppsjávarfiski við markaðsverð á uppsjávarfiski í Noregi sem fengið er af uppboðsmarkaði þar í landi.

Í umsögn Wikborg Rein segir meðal annars að grundvallarmunur sé á íslenskum og norskum uppsjávarmarkaði og sá munur bendi eindregið til þess að grund völlur íslenskrar skattlagningar geti ekki verið það verð sem fæst á norska uppsjávarmarkaðnum. Þar segir einnig að stærsti munurinn á markaði fyrir uppsjávarfisk í Noregi og á Íslandi sé hin lóðrétta samþætting í virðiskeðjunni. Á sama tíma og mikil lóðrétt samþætting er í veiðum og vinnslu uppsjávarfisks á Íslandi sé hún alls ekki til staðar í Noregi. Mikilvæg afleiðing þessa sé sú að fyrsta sala á uppsjávarfiski fari aðallega fram á uppboðum í Noregi. Fyrsta sala á uppsjávarfiski á Íslandi fari aðallega fram á milli samþættra fyrirtækja í virðiskeðjunni eða með fyrirfram skilgreindum samningum. Skyndiuppboð leiði almennt til hærra verðs

„Eins og reynslugögn frá uppsjávarmarkaðnum í Noregi gefa til kynna leiða skyndiuppboð sem viðskiptaform almennt til hærra verðs en verð sem fæst með samningum. Þessi munur á íslenskum og norskum uppsjávarmarkaði bendir eindregið til þess að grundvöllur íslenskrar skattlagningar geti ekki verið það verð sem fæst á norska uppsjávarmarkaðnum.“

Í umsögninni segir líka að norski uppsjávarmarkaðurinn sé byggður á eftirlitskerfi sem reiði sig á traust milli seljenda og kaupenda og opinbert eftirlitskerfi með löndunum og vigt sé fremur vanþróað. Það sé einkennandi fyrir norska uppsjávarmarkaðinn að skráningarkerfi á veiddum afla byggist eingöngu á skýrslum og handvirkum skráningum eiganda eða notanda fiskiskips og viðtakanda og kaupanda aflans. Eftirlitskerfi sem þetta sem byggi á trausti milli aðila feli í sér mikla hættu á að lögum og reglum sé ekki framfylgt. Þrátt fyrir reglugerðarbreytingar á síðustu árum hafi innleiðing á sjálfvirkum vigtunar- og mælikerfum við löndun ekki verið tekin upp.

„Eins og við skiljum breytinguna felur hún í sér að íslensk stjórnvöld, með því að nota norsk verð, vilji almennt kerfi til að finna grundvöll fyrirhugaðrar skattlagningar. Færa má rök fyrir því að slík nálgun sé ekki í samræmi við viðmið OECD um milliverðlagningarleið, OECD TP Guidelines, þar sem hún miðar að því að taka upp almennt og ekki endilega sambærilegt verð í stað þess að leitast í raun við að finna réttan grundvöll skattlagningar fyrir skattgreiðendur. Þar sem áberandi munur er á mörgum sviðum á norska uppsjávarmarkaðnum og þeim íslenska má færa sterk rök fyrir því að meðal mánaðarverð á uppsjávarfiski í Noregi endurspegli ekki verð á ákveðnum degi eða tiltekinni afhendingu á afla á ákveðnum stöðum eða tilteknum gæðum á íslenskum uppsjávarmarkaði.“

Wikborg Rein vann fyrir Samherja rannsókn á starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.