,,Það er gríðarlegt magn af gullkarfa um allan sjó og ég forðast að hugsa þá hugsun til enda hvað ógöngum við værum í ef við sýndum ekki nauðsynlega varkárni,” segir Kristján E. Gíslason (Kiddó), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, en skipið var í höfn í Reykjavík í gær. Aflinn var um 110 tonn og fékkst bróðurparturinn síðasta sólarhringinn á Eldeyjarbanka.

Rætt var við Kiddó á heimasíðu Brim fyrir skemmstu.

,,Ef það er einhver eftirsjá þá hefði ég gjarnan viljað vera kominn suður sólarhring fyrr,” segir Kiddó en hann segist hafa byrjað veiðiferðina á Vestfjarðamiðum.

Mikið af gullkarfa í Víkurálnum

,,Þar var ekkert að hafa nema vind. Engin veiði, bara vindur og nóg af honum. Við byrjuðum í Víkurálnum. Þar hafði verið gott þorskskot í þrjá daga en þorskurinn var genginn hjá þegar okkur bar að garði. Það var gríðarlegt magn af gullkarfa alls staðar í Víkurálnum og eina leiðin til að stunda þarna veiðar var að sneiða hjá karfanum,” segir Kiddó.

Kristján E. Gíslason skipstjóri.
Kristján E. Gíslason skipstjóri.

Frá Víkurálnum var haldið norður í Þverál en þar var sama sagan og í Víkurálnum. Bullandi bræla en enginn þorskur eða ufsi.

,,Það er freistandi að halda að sá þorskur, sem orðið hefur vart við í Víkurálnum, sé hluti af göngu vestan úr hafi, í þessu tilviki sennilega frá Dohrnbankanum. Þetta er dæmigerður hrygningarþorskur, fjögurra til sex kílóa fiskur,” segir Kiddó. Þetta er mat fleiri gamalreyndra togaraskipstjóra hjá Brimi.

Biddu fyrir þér

Viðey endaði veiðiferðina á Eldeyjarbankanum.

,,Við vorum einskipa lengst af. Við fengum góðan þorsk og svo sýnishorn af þessum stóra vertíðarufsa. Ég gef honum þrjár vikur til að komast vel inn í veiðina. Um miðjan mars er hans tími.”

,,Enginn gullkarfi?”

,,Jú, biddu fyrir þér. Við gætum ekki dregið trollið í klukkutíma án þess að allt endaði með ósköpum ef við færum ekki varlega,” segir Kristján E. Gíslason (Kiddó).