Eins og fram hefur komið í fyrri hlutum jólablaðsviðtals Fiskifrétta við Grétar Rögnvarsson, skipstjóra á Jóni Kjartanssyni SU 111, er hann nú kominn endanlega í land eftir fimmtíu ár á sjó og er ánægður með ferilinn.
„Ég hef verið heppinn með sömu áhöfn og hafa margir verið með mér lengi og eru miklir vinir mínir,“ undirstrikar Grétar um samferðamenn sína á sjónum.
Flytja suður og vera nær Spáni
„Nú er bara að fara að njóta lífsins og leika sér. Við eigum hús úti á Spáni og ætlum að reyna að vera mikið þar. Svo erum við á skíðum og við erum með mótorhjól og hjólhýsi,“ nefnir Grétar sem dæmi um það sem hann muni nú taka sér fyrir hendur á ásamt síðari konu sinni, Ingu Rún Beck félagsráðgjafa. Þau búa á Reyðarfirði.
„Inga er talsvert yngri en ég. Hún er búin að vera að vinna hjá Fjarðabyggð í nokkur ár í félagsþjónustu en við erum að spá í að fara að hreyfa okkur eitthvað kannski, flytja suður. Ég held að það endi þannig. Þá er styttra til Spánar,“ segir Grétar og hlær.
Synir á sjónum og dóttir fyrir sunnan
Grétar á þrjú börn með fyrrverandi konu sinni. Þeim fæddist stúlka sumarið 1978. „Þegar hún fæddist var ég úti á sjó á Hólmanesi. Hún kom svo bara með okkur um veturinn á meðan ég var að klára Stýrimannaskólann. Síðan komu tveir strákar 1981 og 1992,“ segir hann.
Dóttir Grétars býr í Reykjavík og starfar ekki í sjávarútvegi en synirnir tveir eru báðir sjómenn. „Annar er á Jóni Kjartanssyni þar sem ég hef verið og hinn var lengi á Ljósafelli frá Fáskrúðsfirði en er núna skipstjóri á laxabáti þar og er að vinna í laxeldinu og er langt kominn með Stýrimannaskólann,“ segir hann.
Fullt af barnabörnum
Fjölskyldan er Grétari hugleikinn. Hann segir þau Ingu ekki eiga börn saman en vera í fullu fjöri og eiga fullt af börnum.
„Ég á föður á lífi og hún á sína foreldra á lífi og við eigum fullt af barnabörnum sem við höfum mjög gaman af. Það er nóg að gera ef maður vill.“
Hús þeirra á Spáni er á Torrevieja svæðinu suður af Alicante og Grétar segir þau vilja vera með annan fótinn þar. „Þar er mjög mikið af Íslendingum. Okkur líður ægilega vel þarna. Erum mikið að hjóla á reiðhjólum og byrjuðum flesta daga á því þegar við vorum úti núna síðast. Svo erum við að spá í að prófa golf. Eitthvað verður maður að gera.“