Fyrir nokkrum árum tók Ástþór Gíslason sjávarlíffræðingur þátt í rannsóknum á rauðátu um borð í norska rannsóknaskipinu Helmer Hanssen. Tilgangur rannsóknanna var að kanna hvort hægt væri að meta útbreiðslu rauðátu með gervitunglum. Rannsóknirnar fóru fram út af Lofoten og var margvíslegum aðferðum beitt til að meta magn rauðátu á svæðinu, m.a. svifsjá, bergmálsaðferð og söfnun með átuháfum. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við myndir úr gervitungli sem sýndu rauðleita slikju á yfirborði hafsins.

„Niðurstaðan var að það var hægt að greina rauðátuflekki í yfirborðslögum sjávar af gervitunglum,“ segir Ástþór. Sjá mátti samhengi milli þess sem sást í rannsóknum á jörðu niðri og þess sem gervitunglin „sjá“ ofan úr geimnum.

Litur sjávar

„Það er komin dálítið löng reynsla af því að litur sjávar endurspeglar magn plöntusvifs í yfirborðslögum. En þetta er í fyrsta sinn sem reynt hefur verið að nema rauðleitan lit sjávar með það markmið að gá hvort maður geti skoðað eitthvað eða metið magn rauðátu. Í sjávarvistfræði hafa gervitungl hingað til fyrst og fremst verið notuð til að skoða plöntusvif.“

Ástþór, sem nú er reyndar hættur störfum hjá Hafrannsóknastofnun sökum aldurs, segir þessar niðurstöður lofa góðu um að hægt verði að nýta myndir frá gervihnöttum til þess að greina útbreiðslu rauðátu í hafinu.

Árið 2019 voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í Scientific Reports, opnum aðgangi á vegum vísindatímaritsins Nature. Greinin nefnist Remote sensing of zooplankton swarms og aðalhöfundur er Sünnje Basedow, prófessor við háskólann í Tromsø í Noregi, sem hafði forystu um þessar rannsóknir, en Ástþór er einn meðhöfunda. Ástþór segir að unnið sé áfram að þessum rannsóknum í Noregi, en hann hafi ekki tekið þátt í þeim.

Kortið sýnir svæðið sem rannsakað var við Lofoten. Myndin er fengin úr vísindagrein þeirra Basedows, Ástþórs og félaga frá 2019.
Kortið sýnir svæðið sem rannsakað var við Lofoten. Myndin er fengin úr vísindagrein þeirra Basedows, Ástþórs og félaga frá 2019.

Skýin trufla

„Það eru náttúrlega agnúar á þessu sem er að skýjafar getur truflað mikið. Það á svo sem líka við þegar verið er að skoða plöntusvif. Þessir gervihnettir sjá ekki í gegnum skýin.“

Engu að síður séu þetta áhugaverðar niðurstöður.

„Það er náttúrlega takmarkað hvað við getum skoðað rauðátu með þessari aðferð, við erum háð því að hún sé alveg í blá yfirborðinu. En þegar við erum að skoða magn rauðátu við Ísland á hefðbundinn hátt með háfum þá tekur það langan tíma. Við tökum stöðvar á nokkurra sjómílna fresti, þetta eru punktmælingar, en með þessu fáum við miklu betri heildarmynd – þegar vel viðrar. Þannig að þetta er spennandi aðferð.“

Örlítið kvikindi

Samkvæmt Hafrannsóknastofnun er áætlað að árlegur lífmassi rauðátu innan íslensku efnahagslögsögunnar sé um 7 milljónir tonna og massinn er mestur við suðurströndina.

„Þetta er örlítið kvikindi, fullvaxin eins og hrísgrjón að stærð, en mikilvæg tegund, langalgengasta svifdýrið í Norður-Atlantshafi og gríðarlega mikilvæg fæða fyrir uppsjávarfisk.“

Rauðátan er þannig einn mikilvægasti hlekkurinn í fæðusamhengi hafsins.

„Þetta hangir auðvitað allt saman. Rauðátan þarf þörungablóma. Hún hrygnir inn í þörungablómann og er háð því hvenær þörungavöxturinn er. Svo reiða lirfur og seiði flestra nytjastofna sig á ungviði rauðátu fyrsta kastið, og þá þarf hrygning rauðátunnar og hrygning fiska að hitta svolítið saman.“

Upp úr djúpinu

Rannsóknirnar við Lofoten fóru fram að vorlagi og snemma sumars, í maí, en þá er rauðátan komin upp úr djúpum hafsins þar sem hún liggur í dvala yfir veturinn.

„Rauðátan kemur upp í apríl og svo hrygnir hún í yfirborðslögunum og heldur sig í yfirborðslögunum yfir sumarið. Svo fer hún í júlí og ágúst að leita niður í djúplög sjávar, og hún hefur vetursetu djúpt í sjónum. Jafnvel á nokkur hundruð metra dýpi. Á veturna er rauðátan í dvala, hún hægir á lífstarfseminni og notar litla orku. Strategían er sú að vera uppi í yfirborðslögunum meðan það er þörungavöxtur, meðan eitthvað er að hafa. Svo þegar þörungavöxturinn í yfirborðslögunum er búinn þá fer hún niður og hefur vetursetu, því annars tekur hún áhættuna á því að vera bara étin. Þetta er svona strategían, að vera uppi þegar eitthvað er að hafa og svo fara bara niður þegar fæðan er búin. Þannig hefur þetta kerfi þróast.“

Ástþór segir viðgang rauðátunnar hafa verið nokkuð sveiflukenndan frá ári til árs, en ekki sé hægt að greina miklar breytingar til lengri tíma, hvorki að henni hafi hnignað né að staða hennar hafi batnað.

Frænkan í norðri

„Fyrir norðan land höfum við þó séð að magn rauðátu hefur verið að aukast og póláta að hopa. Þar er náttúrlega að hlýna og við höfum séð ákveðna tilhneigingu að póláta, sem er kaldsjávartegund, virðist vera að hopa langt norður af landinu en rauðátan að stíga inn.“

Pólátan er náskyld rauðátu en miklu stærri og mikið étin af loðnu þegar loðnan er í fæðuleit fyrir norðan land.

„Hún er örugglega mjög góður biti, mjög góð fæða fyrir loðnu, af því að hún er stór og fiturík, ekkert síðri fæða en rauðáta. Þannig að ef hún er að víkja þá væri það ekki nógu gott fyrir þá sem éta hana, sem er einkanlega kannski loðnan. Ef pólátan myndi víkja á fæðuslóð loðnunnar fyrir norðan land eins og virðist vera þá myndi það líklega skapa heldur verri skilyrði fyrir loðnuna.“

Rauðátan er pínulítil, fullvaxin á stærð við hrísgrjón. Aðsend mynd

Ástþór Gíslason. FF MYND/Hafrannsóknastofnun, Svanhildur Egilsdóttir

Norska rannsóknaskipið Helmer Hansen. MYND/UiT