Tekjur Brims hf. á árinu 2024 voru 58,1 milljarður króna miðað við meðalgengi ársins 2023. Félagið hagnaðist um 6 milljarða kr. á árinu. Eignir námu samtals 143,3 milljörðum króna, skuldir 73 milljörðum og eigið fé var 70,3 milljarðar kr. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir árið 2024.
Áhrif hlutdeildarfélaga á rekstur Brims voru jákvæð um rúman 2,1 milljarð kr. en voru árið áður tæpur 1,5 milljarður kr. Þar munar mestu um danska félagið Polar Seafood Denmark.
Stjórn Brims leggur til að arðgreiðsla til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 verði tæpir 2,9 milljarðar kr. sem er um 2% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2024.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, gagnrýnir stjórnvöld nokkuð harðlega í uppgjörstilkynningu félagsins. Hann segir afkomu félagsins í fyrra ekki hafa verið ásættanlega en hagnaður þess dróst saman um meira en þriðjung milli ára.

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
Guðmundur segir að undanfarið hafi átt sér stað þróun við stjórnun fiskveiða á Íslandi sem ekki horfi til heilla hvorki fyrir samfélagið í heild, fyrirtækin í sjávarútvegi eða náttúruna. Nánar má lesa um þetta í frétt Viðskiptablaðsins.