„Það gengur bara þokkalega, ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Víkingur Þórir Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks, spurður um hvernig framleiðslan gangi.

Haustak þurrkar fisk og hausa, framleiðir skreið sem að stærstum hluta er seld til Nígeríu. Afkoma fyrirtækisins er þannig að verulegu leyti komin undir því hvernig efnahagsástandið er í Nígeríu hverju sinni.

„Þetta gengur allt upp, markaðurinn þokkalegur en þeir hafa aðeins verið að basla við næruna. Hún hefur verið að falla svolítið síðan í september og október. Svartamarkaðsgengið, eins og þeir kalla það, var komið í 700 en var 750 núna 18. janúar. En þetta flökti rosalega hérna árið 2017 þegar hún fór niður í 500.“

Kosningar verða haldnar í Nígeríu eftir tæpan mánuð, bæði til þings og forseta og Víkingur segir alltaf einhvern óróleika í kringum slíkt.

„Við fylgjumst rosalega vel með öllu þarna. Áður horfðu menn ekkert út fyrir tólf mílurnar, en dag er þetta orðinn svo mikilvægur markaður fyrir okkur. Við verðum að fylgjast með verðum á markaðnum, þau fara bæði upp og niður.“

Taka púlsinn

Hann segir mikilvægt að fara suður til Nígeríu reglulega til að hitta kaupendur og taka púlsinn á fólki.

„Við reynum yfirleitt að fara einu sinni til tvisvar á ári. En svo kom þetta covid og ef maður ætlaði að fara út þá þyrfti maður að sitja í stofufangelsi í tvær vikur. Það var enginn að fara að nenna því, en áður en þetta covid kom þá vorum við að fara einu sinni til tvisvar á ári. Þá erum við að fara á markaðinn, sjá hvaða magn er til og hvort það sé alltaf ný og fersk vara á markaðnum. Hvort við séum í desember kannski að selja septembervöru. Við erum að hitta bæði stóru kaupendurna og svo líkan neytendur á markaðnum. Við viljum fá að vita hvað við getum gert betur. Þegar þetta fer í pottinn þá þarf þetta að vera ferskt og fínt. Þú felur það ekkert. Þegar þú ferð að elda hana þá kemur það alltaf í ljós.“

Verksmiðja Haustaks í Grindavík. FF MYND/gugu
Verksmiðja Haustaks í Grindavík. FF MYND/gugu
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Haldið í hefðina

Sú mikla áhersla sem nú er lögð á gæði skreiðarinnar er reyndar mikil breyting frá því áður tíðkaðist hér á landi.

„Jú, þetta hefur breyst alveg gríðarlega á síðustu 10-15 árum. Það eru allir á Íslandi í því að framleiða góða vöru. Maður er nú búinn að vera í þessu síðan 1999, og nú eru allir framleiðendur að gera mjög góðar vörur. Enda þetta gengur betur og selst betur.“

Skreiðin heldur samt alltaf mikilvægi sínu í mataræði Nígeríumanna, og Víkingur segir ekkert benda til þess að yngri kynslóðirnar séu að verða fráhverfir henni.

„Maður er alltaf með þessa spurningu í hausnum, en þetta virðist alveg ganga niður stigann. Unga fólkið er alveg að taka þetta. Þetta er eins og skatan hjá okkur á Þorláksmessu. Það er ekki bara gamla fólkið sem er að borða þetta.“

Risamarkaður

Markaðurinn í Nígeríu er ógnarstór, enda er landið hið sjöunda fjölmennasta í heimi með rúmlega 200 milljónir íbúa.

„Það er mikið magn sem fer þarna út.“

Eitthvað er selt til annarra landa, en það er hverfandi í samanburði við útflutninginn til Nígeríu.

„Menn hafa reynt að flytja út gáma til nágrannahéraða en Nígería hefur bara verið þannig markaður, að þeir hafa tekið allt og svo eru þeir sjálfir að selja út um allt. Þeir eru miðstöðin. En svo eru litlir markaðir í Bandaríkjunum og London og víðar, og það eru þá Nígeríumenn sem búa þar. Þeir halda í hefðirnar, alveg eins og við. Enda er þetta besta prótein og þú getur fengið, eins heilsusamlegt og það getur verið.“

Skreiðarfélögin

Haustak er í sameiginlegri eigu grindvísku útgerðarfélaganna Þorbjarnar og Vísis. Mestur hluti framleiðslunnar er unninn úr hráefni frá Þorbirni og Vísi, en eitthvað segir Víkingur þó falla til frá öðrum þegar mikið er um að vera.

Haustak hefur lengi verið stærsta fyrirtækið hér á landi í hertum fiski, flytur út um það bil 3.000 tonn árlega, en Víkingur segir Laugafisk hafa saxað mjög á það forskot undanfarin misseri. Laugafiskur er í eigu þriggja útgerða – Nesfisks, Skinneyjar-Þinganess og Brims, og á hvert þessara þriggja fyrirtækja þriðjung í Laugafiski.

Á síðasta ári fluttu Íslendingar 22.372 tonn út og fengu 9,2 milljarða fyrir. Megnið af því fór til Nígeríu, eða 19.398 tonn sem skiluðu verðmætum upp á 7,3 milljarða.