Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið samfelld makrílvinnsla að undanförnu og hefur makríllinn fengist innan íslenskrar lögsögu. Þetta segir á vef fyrirtækisins.

Beitir NK kom aðfaranótt laugardags með 1.655 tonn og kom hann í kjölfar Barkar NK sem var með 1.500 tonn. Meðalstærð makrílsins í Beiti er sögð hafa verið vel yfir 500 grömm. Aflinn hafi ýmist heilfrystur, hausskorinn eða flakaður.

„Í kjölfar Beitis kom síðan Margrét EA með rúmlega 1.100 tonn og gengur vel að vinna aflann. Þá er Vilhelm Þorsteinsson EA kominn til Neskaupstaðar með 1.445 tonn og ætti vinnsla úr honum að hefjast síðdegis,“ segir á sildarvinnslan.is.

Þá segir að þegar löndun úr Vilhelm ljúki verði um 7.200 tonn af makríl komin á land í Neskaupstað á vertíðinni. Að auki hafi síld borist á land því stundum hafi makrílaflinn verið dálítið síldarblandaður.

„Aflabrögð makrílskipanna í gær voru heldur döpur en í morgun bárust fréttir af Berki NK og Barða NK í Rósagarðinum og leit vel út með afla,“ segir að lokum.