Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs innslustöðvarinnar, segir að undirbúningur sé nú hafinn að komandi makrílvertíð sem sé næst á dagskrá hjá fyrirtækinu.
„Við reiknum með að fara af stað í lok júní. Líklegast verður þá farið hér suðaustur af Íslandi og byrjað þar eins og verið hefur undanfarin ár,“ segir Sindri.
Vonir eru bundnar við góða makrílveiði eftir loðnubrest tvö ár í röð. „Það veitti ekki af því að fá góða makrílvertíð. Það væri afskaplega gott í loðnuleysisári,“ segir Sindri sem aðspurður kveður erfitt að spá fyrir um þessa hluti.
„En við getum að minnsta kosti sagt að þegar veðurlagið er svona miðað við í fyrra þá er maður bjartsýnni,“ segir Sindri. Hitastigið og sólríkt og bjart veður skipti máli. „Sumarið í fyrra var náttúrlega afskaplega lélegt hvað það varðar,“ bætir hann við.
Gott hljóð í kaupendum
Þannig að hagstæð tíð undanfarið vekur von í brjósti. „Við verðum að minnsta kosti að fara bjartsýnir inn í vertíðina, það er ekkert annað að gera,“ segir Sindri. Í þessum veiðum verði skipin Gullberg, Huginn og Sighvatur Bjarnason.
Fulltrúar Vinnslustöðvarinnar voru á stóru sjávarútvegssýningunni í Barcelona á dögunum og Sindri segir hljóðið í mönnum þar hafa verið gott hvað makrílinn snerti svo markaðshorfur séu fínar. Vinnslustöðin selji mest til Austur-Evrópu og Afríku. „Það er stærsti viðkiptahópurinn en svo framleiðum við alltaf eitthvað fyrir Asíumarkað.“
Frábær kolmunnaveiði
Varðandi vinnsluna í landi segir Sindri alla bíða spennta eftir að komast á vaktir. Nú sé hins vegar að róast mikið yfir starfseminni í bili og sumarstopp verði frá því eftir sjómannadaginn og út júní.
„Við erum búin að vera á fullu í saltfiski í allan vetur. Það hefur verið góð veiði og gengið vel að vinna. Og í apríl vorum við í kolmunnanum. Það gekk alveg frábærlega vel,“ segir Sindri.
Farnir hafi verið þrír túrar suður fyrir Færeyjar í apríl og veiðst ellefu til tólf þúsund tonn. Hluti af kvótanum bíði þar til síðar á árinu. „Við ætlum að fara í það á milli síldarvertíða í haust. Þá erum við að horfa á íslensku lögsöguna og þá færeysku líka.“