Óðinn Arnberg Kristinsson, skipstjóri á Óla á Stað GK, og hans menn voru í óða önn að draga línuna úti fyrir Grindavík þegar náðist í hann. Senn kveður Óðinn trefjaplastbátinn sem hann hefur stýrt alveg frá því hann kom frá Seiglu á Akureyri árið 2014. Hann tekur þá við Margréti GK, tæplega 30 brúttótonna stálbát sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur lætur smíða fyrir útgerðina hjá Celiktrans í Tyrklandi þessa dagana.

Á flot 20. júní

Nýsmíðin er 13 metra langur bátur, 5,5 metrar á breidd. Hann verður fyrsti stálbáturinn inn í krókaaflamarkskerfið sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð í yfir 20 ár. Óðinn er nýkominn að utan þar sem hann fékk að berja bátinn augum og honum líst vel á það sem hann sá.

„Verkinu miðar vel áfram og áformað er að setja bátinn á flot 20. júní. Svo taka við prófanir og að því loknu verður hann settur í skip og gangi allt að óskum ætti hann að vera lagður af stað heim fyrir fyrstu vikuna í júlí,“ segir Óðinn.

Friðfinnur Einarsson, eftirlitsmaður Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur með verkinu og framkvæmdastjórinn, Þráinn Jónsson.
Friðfinnur Einarsson, eftirlitsmaður Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur með verkinu og framkvæmdastjórinn, Þráinn Jónsson.

Hingað kominn verður hann tekinn inn í Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem gengið verður frá síðustu atriðum og búnaður prófaður . Óðinn vonast til þess að Margrét GK verði tilbúin á veiðar fyrstu vikuna í september eða í upphafi nýs kvótaárs.

Djúpristari

„Ég sé fram á að nýi báturinn verði stöðugri í sjó og fari betur með mannskapinn. Hann ristir til að mynda einum metra dýpra en Óli á Stað. En gallinn er kannski sá að hann er ekki svo langur en kerfið býður heldur ekki upp á það. En ég á von á því að hann verði stöðugur í sjó og höggvi síður. Það verður fróðlegt að sjá muninn á plastinu og stálinu í sama stærðarflokki báta,“ segir Óðinn.

Hann segir að sams konar búnaður verði í Margréti GK og er í Óla á Stað nema hvað krókarnir verða 20.000 17.500 í Óla á Stað. Nýi báturinn tekur 60 kör í lest.

Samningur um smíðina var undirritaður á síðasta ári en tafir urðu á smíðinni þar sem erfitt reyndist að fá búnað í hann afhentan.

Olíunotkun niður um fjórðung

Báturinn verður með tveimur 214 kW aðalvélum. Vélarnar framleiða rafmagn fyrir krapavél og aðra raforkunotkun með tveimur 40 kW rafölum. Ljósavélin kemur frá MD-vélum og glussakerfið var hannað af Landvélum. Allt á millidekki er frá Micro í Hafnarfirði og rafalar og krapavélar koma frá Aflhlutum og Kælingu. Algeng skrúfustærð á krókaaflamarksbátum er um einn metri í þvermál en skrúfan á nýsmíðinni er 1,7 metrar. Við þetta á olíunotkun að fara niður um 25%. Einungis önnur vélin verður keyrð meðan dregið er og báðar þegar báturinn er á stími. Fullbúinn á veiðar kostar hann á bilinu 370-380 milljónir króna.

Margar fyrirspurnir

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðarvíkur, segir að smíðin hafi vissulega tafist, m.a. vegna þess að ákveðið var að gera ýmsar breytingar á bátnum meðan á smíðinni stóð, m.a. að setja í hann stærri og öflugri hliðarskrúfur.

Tölvugerð mynd af Margréti GK.
Tölvugerð mynd af Margréti GK.

„Það er búið að leggja allar lagnir í bátinn, einangra og klæða lestina og núna er verið að innrétta allar íbúðir. Það verður ekki mikið sem þarf að vinna við hann hér á landi, einungis setja í bátinn línubúnaðinn og keyra allan búnað og prófa,“ segir Þráinn.

Hann segir að mikið hafi verið spurt um bátinn en tekin hafi verið ákvörðun um að semja ekki um sölu á fleiri bátum að sinni. Með breytingunum sem urðu í smíðaferlinu urðu jafnframt kostnaðarhækkanir og ljóst að næsti bátur verður dýrari en sá sem fer til Stakkavíkur. Verðið á næstu bátum verði eitthvað yfir 400 milljónum kr.