Einar Hálfdánarson er líklega sá eini á öllu Austurlandi sem gerir út á ígulker milli þess sem hann rær við annan mann á sæbjúgu á Eyja NK 4. Einar segir þokkalegan gang í ígulkerjaveiðum sem fara fram með plógi en afurðunum er ekið suður til Njarðvíkur þar sem ígulkerjahrogn eru framleidd hjá Royal Iceland.
Eyji NK var á sæbjúgum í september og október á síðasta ári en hefur síðan fengist við ígulkerjaveiðar. Einar segir að það sé allur gangur á því hvað dagurinn sé að gefa – allt frá því að vera lítið og upp í ágætt. Skástu róðrarnir gefi af sér um tvö tonn upp úr sjó en Einar vill ekki taka meira í bátinn í hverjum róðri. Mikil fyrirferð sé á aflanum. Ígulkerin fara í hlífðarplast og í kör og ekkert ísað enda fara þau lifandi í vinnsluna í Njarðvík.
![Einar Hálfdánarson skipstjóri á Eyja NK.](http://vb.overcastcdn.com/images/121881.width-800.jpg)
© Þorgeir Baldursson (.)
„Afurðirnar eru dýrar en það líka mikill vinnslukostnaður í kringum þetta. Það er kynkirtillinn sem verið er að sækjast eftir og afurðirnar fara á Evrópumarkað og eru notaðar í sushi-afurðir. Mig grunar að Frakkland sé stærsti markaðurinn en ég sinni þeirri hlið mála að sjálfsögðu ekki heldur stunda bara veiðarnar,“ segir Einar.
„Ekki á framfæri bæjarins“
Ígulkerjahrogn er dýr afurð og mikið fyrir henni haft. Undanfarna mánuði hefur Einar sótt ígulkerin í Berufjörð og norður í Norðfjarðarflóa. Hann reynir að dreifa veiðunum sem mest á bleiður því auðvelt sé að ganga of nærri þeim með of mikilli sókn. Ekki sé gott að rótast mikið í hverri bleiðu of lengi.
Aðspurður hvort hann sé að gera það gott á þessum veiðum segir Einar: „Ég er alla vega ekki framfæri bæjarins og þetta er reyndar fínasta verkefni yfir veturinn. Veiðarnar eru allar háðar tilraunaveiðileyfum hérna fyrir austan. Það eru gefin út um 25 tonn á hvert svæði og það er ekki sjálfgefið að ná því öllu. Ég fer ekki tvisvar á sama blettinn til þess að hafa ekkert út úr því. Ígulkerin eru lífverur sem glíma oft við offjölgun og þess vegna þarf að grisja suma bletti. Að grisjun lokinni er beðið í einhverja mánuði og þá er komin fylling í ígulkerin. Þá hafa þau haft nóg æti.“
20.000 kr. kílóið
Einar hefur í mörg ár stundað veiðar á ígulkerjum og allan tímann hafa þær flokkast undir tilraunaveiðar. Þegar veiðar eru prófaðar á nýjum svæðum þarf hann að taka með sér rannsóknamann frá Hafrannsóknastofnun og standa sjálfur undir kostnaði við það. Yfirleitt hafa tveir verið með Einari í áhöfn á ígulkerjaveiðunum en í vetur eru þeir þó bara tveir. Hann býst við því að vera við ígulkerjaveiðar fram yfir næstu mánaðamót og snúa sér þá aftur að sæbjúgunum. Áður fyrr var talsvert veitt af ígulkerjum við Ísland og þau seld heil til Japans. Royal Iceland hefur hins vegar sérhæft sig í hrognavinnslu úr ígulkerjunum fyrir sushi-markaðinn. Vinnslan er flókin og vandasöm en það er eftir miklu að slægjast því ígulkerjahrogn eru dýrasta sjávarafurðin sem seld er frá Íslandi. Þau eru unnin í margvíslegar pakkningar eftir stærð og lit hrognanna. Dýrasta varan fer á sushi markaðinn og kostar nálægt 20.000 kr. kílóið. Úr hverju ígulkeri fást ekki nema örfá grömm af hrognum.