Línuskip Vísis og togarinn Jóhanna Gísladóttir GK hafa landað ágætum afla í vikunni þrátt fyrir leiðindatíðarfar. Páll Jónsson GK landaði um 90 tonnum í Hafnarfirði á mánudag, Jóhanna Gísladóttir landaði nánast fullfermi á Skagaströnd á mánudag og Sighvatur er að landa tæpum 100 tonnum í Grindavík í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar heyrði hljóðið í skipstjórunum og byrjaði á að ræða við Benedikt Jónsson skipstjóra á Páli Jónssyni. Benedikt sagði að túrinn hefði fyrst og fremst einkennst af vitlausu veðri.

Kolvitlaust veður

„Það var hundleiðinlegt veður megnið af túrnum og er það vægt til orða tekið. Við byrjuðum úti á Fjöllum og þar var afli góður í fyrstu tveimur lögnunum, rúm 30 tonn í hvorri. Síðan gerði bókstaflega kolvitlaust veður og þá var farið inn í Faxaflóann og lagt upp í harða landi. Þar var lagt tvisvar og fengust um 10 tonn í hvorri lögn. Að þessu loknu var haldið til Hafnarfjarðar og landað þar enda ófært til Grindavíkur vegna veðursins. Aflinn var blandaður, 30 tonn langa, 25 tonn þorskur og 12 tonn keila ásamt öðru. Menn eru bara sáttir við túrinn en veðurlagið er ansi þreytandi,” sagði Benedikt.

Jóhanna Gísladóttir landaði á Skagaströnd

Jóhanna Gísladóttir landaði á Skagaströnd á mánudaginn og sagði Smári Rúnar Hjálmtýsson skipstjóri að veðrið hefði verið heldur leiðinlegt alla veiðiferðina.

„Við lönduðum á Grundarfirði sl. fimmtudag tæpum 60 tonnum sem fengust á Eldeyjarbanka og á Flugbrautinni út af Snæfellsnesi. Að lokinni löndun á Grundarfirði var haldið í Reykjarfjarðarálinn vegna leiðindaveðurs vestur af landinu. Fyrst var mjög góð veiði í álnum en veðurfarið var áfram þreytandi. Þarna fékkst ágæt blanda af þorski og ýsu. Síðan var landað á Skagaströnd á mánudag rúmlega 65 tonnum. Veðurfarið hefur verið heldur óhagstætt að undanförnu en vonandi fer þetta skánandi á næstunni,” sagði Smári Rúnar.

Línuskipið Sighvatur kom til Grindavíkur í morgun og verður landað úr honum í dag. Óli Björn Björgvinsson skipstjóri kvartaði undan veðurfarinu að undanförnu. “Það eru búin að vera bölvuð læti og þetta hafa verið heldur erfiðir dagar veðurfarslega. Það fór nánast aldrei undir 20 metra og ölduhæðin var mikil. Aflinn var tiltölulega góður miðað við aðstæður. Við byrjuðum á að leggja á Skerjunum og þar fékkst þokkaleg blanda. Síðan var haldið norður í Breiðafjörð en þar reyndist vera dapur afli. Þá var farið á Vestfjarðamið og lagt í grunnkantinum og ofan í Nesdýpið. Þarna voru teknar þrjár lagnir og það fiskaðist bara vel en það var heldur mikill þorskur í aflanum. Við erum í reynd bara kátir með túrinn miðað við allar aðstæður,” sagði Óli Björn.