Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í Eyjum í gær og höfðu landað í Neskaupstað á mánudaginn. Aflinn í fyrri túrnum hjá skipunum var mest þorskur en ýsa í þeim síðari hjá Bergi en blandaður afli hjá Vestmannaey. Skipstjórarnir, Jón Valgeirsson á Bergi og Birgir Þór Sverrisson á Vestmannaey, segja að það hafi verið góður afli á Austfjarðamiðum í allt haust og skipin hafi yfirleitt verið að taka tvo túra á viku.

Jón Valgeirsson segir að tveir síðustu túrarnir hafi gengið ágætlega hjá þeim Bergsmönnum.

„Í fyrri túrnum var mest veitt á Gula teppinu og á Héraðsflóa en í þeim síðari var farið víðar. Við byrjuðum á Glettinganesflaki en síðan var haldið á Tangaflak, Gerpisflak og endað á Gula teppinu og Litladýpi. Það þurfti svolítið að hafa fyrir því að finna ýsuna.”

Birgir Þór Sverrisson á Vestmannaey segir að vel hafi gengið að veiða í túrunum tveimur en aflasamsetningin væri býsna ólík.

„Í fyrri túrnum var veitt á Gula teppinu og síðan sunnan við Litlagrunn þar sem fékkst þessi stóri og fallegi þorskur. Í seinni túrnum var byrjað á Tangaflaki og síðan var veitt á Glettinganesflaki og Skrúðsgrunni en endað austan við Örvæntingu. Aflinn í seinni túrnum var mjög blandaður, ufsi, þorskur og ýsa.”

Bergur heldur til veiða á ný í dag og Vestmannaey á morgun. Gert er ráð fyrir að skipin taki strikið austur fyrir land.