Kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni hefur gengið vel síðustu daga. Hákon EA landaði 1.600 tonnum á Seyðisfirði í dag og Beitir NK kom síðdegis til Neskaupstaðar með 3.000 tonn. Barði NK er síðan á landleið með 2.100 tonn og Börkur NK með 3.000 tonn.

Skipstjórar skipanna láta vel af sér og sló heimasíða Síldarvinnslunnar á þráðinn til Tómasar Kárasonar á Beiti og Hálfdáns Hálfdánarsonar á Berki. Tómas segir að afli hafi verið góður og hafi 3.000 tonn fengist í átta holum. Talsvert hafi verið að sjá af kolmunna á miðunum en afli hafi verið mestur yfir nóttina.

Hálfdán lét einnig mjög vel af veiðinni.

Hálfdán Hálfdánarson, skipstjóri á Berki NK. Mynd/Þorgeir Baldursson
Hálfdán Hálfdánarson, skipstjóri á Berki NK. Mynd/Þorgeir Baldursson

„Við fengum aflann í níu holum en yfirleitt er dregið í 4-10 tíma. Algengt var að fá 350-450 tonn í holi en stærsta holið var 500 tonn. Það var í reynd hálfgerð bræla allan túrinn og ljóst er að við fáum bölvaða brælu á móti á landleiðinni. Kolmunnaveiðin hefur að undanförnu farið fram á tveimur svæðum. Flest skipanna voru á því svæði sem mest hefur verið veitt á eða nærri skosku lögsögunni, en við ásamt Beiti og tveimur eða þremur öðrum skipum höfum verið við svonefnt Ræsi sem er um 40 mílur suðvestur af Færeyjum. Það var ágætis veiði á báðum þessum svæðum. Hin góða veiði hefur gert það að verkum að í Færeyjum er töluverð löndunarbið og því hafa ekki mörg færeysk skip verið að veiðum síðustu daga. Kolmunnaveiðarnar hafa farið mjög vel af stað nú eftir áramótin og ekki hægt að vera annað en bjartsýnn hvað framhaldið varðar,“ segir Hálfdán.