Náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar Fiskeldis Austfjarða í Seyðisfirði og fyrirhugaðar eldistegundir og eldisaðferðir þar gætu gefið tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa af starfseminni.
Þetta kemur fram í umsögn heimastjórnar Seyðisfjarðar til Matvælastofnunar.
„Heimastjórn telur brýnt að leyfisskyld starfsemi verði í samræmi við gildandi strandsvæðaskipulag og að ítrustu kröfum verði fylgt um vöktun og eftirlit,“ bætir heimastjórnin við og leggst þar með ekki gegn áformunum.
Stefnan sé umhverfisvænt eldi
Eins og fram hefur komið áformar Fiskeldi Austfjarða hf. tíu þúsund tonna laxeldi í Seyðisfirði eins og lýst er í matsskýrslu fyrirtækisins frá í júní 2021. Þar segir að fyrirtækið hafi byrjað starfsemi 2012 og unnið síðan að uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum. Stefnan sé að byggja upp umhverfisvænt eldi í sem mestri sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.
Þá segir að Fiskeldi Austfjarða hafi þegar starfsemi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Félagið hafi rekstrar- og starfsleyfi í báðum fjörðunum og sé heimilt að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði.
Einn af þremur á móti
Jón Halldór Guðmundsson, einn þriggja meðlima heimastjórnarinnar, lýsti sig andvígan umsögn meirihluta hinna tveggja stjórnarmannanna, Jónínu Brynjólfsdóttur og Margrétar Guðjónsdóttur. Kvaðst hann í bókun telja að fyrirhugað laxeldi myndi hafa töluverð og jafnvel mjög mikil vistfræðileg áhrif á lífríkið í Seyðisfirði.
„Óvissan um það er það mikil, að það eitt og sér ætti að koma í veg fyrir útgáfu leyfis fyrir svo viðamikið sjókvíaeldi,“ bókaði Guðmundur sem sagðist þess utan telja að sjókvíaeldi hefði neikvæð áhrif á atvinnulíf á Seyðisfirði, hefði í för með sér mjög neikvæða breytingu á ímynd byggðarlagsins og að það myndi hafa neikvæð áhrif á siglingaöryggi í firðinum.
Vanti umbætur í frumvarp
Einnig gagnrýndi Guðmundur að sveitarfélög hefðu engar beinar tekjur af fiskeldi í sjó og að sjókvíaeldi greiddi engin auðlindagjöld.
„Nú berast fréttir af frumvarpi um lagareldi sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Athygli vekur að í þeirri mynd sem frumvarpið kom fram, eru engin ákvæði um umbætur á þessum atriðum. Þó ekki væri nema af þessum ástæðum ætti Heimastjórn Seyðisfjarðar að álykta gegn veitingu leyfis til laxeldis í Seyðisfirði.“
Andstaða án fordæma
Fjölmargir hafa gert athugasemdir við áformin í Seyðisfirði. Í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum frá í árslok 2021 gerði Skipulagsstofnun þetta að umtalsefni. „Fá ef nokkur fordæmi eru fyrir viðlíka andstöðu heimamanna við sjókvíaeldi,“ sagði í áliti stofnunarinnar sem lagði til sextán skilyrði af margvíslegu tagi sem uppfylla þurfi áður en leyfi fyrir eldinu verði gefið út.