Fiskistofa í Danmörku segir nýjan dróna sem prófaður var úti fyrir ströndum Norður-Jótlands lofa góðu varðandi eftirlit með fiskiskipum.
Um er að ræða ástralskan dróna af gerðinni Textron Aerosonde sem drífur um 140 kílómetra á haf út og er með 3,7 metra vænghaf. Hann er með fasta vængi og er settur á loft með slöngvivaði og síðan fangaður í net við lendingu.
Þruma úr heiðskíru lofti
„Hraði drónans gerir að verkum að hann kemst tiltölulega hratt að skipi sem hafa á eftirlit með. Á sama tíma er erfitt að sjá hann eða heyra úr fjarlægð,“ er haft eftir Lone Agathon Jensen, umsjónarmanni eftirlitsins, í umfjöllun um málið á vef Fiskistofunnar dönsku.
„Þetta þýðir að fiskiskip sem er meðvitað að brjóta reglurnar, til dæmis með því að nota ólögleg veiðarfæri, ná ekki að tæma netið í hafið áður en við náum til þeirra og skjalfestum brotið,“ segir Lone.
Stýrt af flugmanni með aðstoð eftirlitsmanns
Drónanum er stýrt af sérstökum flugmanni og við hlið hans er eftirlitsmaður frá Fiskistofu og leiðbeinir honum eða fylgist með fluginu annars staðar frá í gegnum vefinn.
Fram kemur í umfjölluninni að prófanirnar á drónanum hafi staðið frá því í apríl á þessu ári og fram í miðjan ágúst. Þær hafi verið gerðar sem hluti af samvinnu undir hatti Siglingastofnunar í Evrópu og fjármagnaðar af henni. Dönsk tollayfirvöld og danski sjóherinn taki einnig þátt í verkefninu.
Nýr dróni Fiskistofu ókominn

Eins og fram í Fiskifréttum um miðjan ágúst áætlar Fiskistofa hér á landi að taka í notkun nýjan dróna sem er mun langdrægari en þeir drónar sem nú eru í notkun hjá stofnuninni.
Sævar Guðmundsson, deildarstjóri landeftirlits og umsjónarmaður dróna hjá Fiskistofu, segir nýja drónann ókominn. Langur afgreiðslufrestur sé á slíkum tækjum nú um stundir sakir stríðsreksturs.
Aðspurður segir Sævar Fiskistofu ekki hafa tekið þátt í samstarfi við EMSA á sama hátt og Fiskistofa í Danmörku. Það hafi Landhelgisgæslan hins vegar gert þegar gerðar voru prófanir hér við landi með þyrludróna.