Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi fimmtudaginn 20. mars um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Vatneyri í Patreksfirði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Ekki liggur fyrir hversu lengi þetta gat var nótarpokanum en pokinn hafði síðast verið skoðaður fjórum vikum áður en gatið kom í ljós.
Kafað í allar kvíar á eldissvæðinu
„Gatið uppgötvaðist við reglubundið neðansjávareftirlit og var viðgerð lokið samdægurs. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 50 x 25 cm rifa á 20 metra dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 117.133 laxar með meðalþyngd u.þ.b. 3 kg. Neðansjávareftirlit var síðast framkvæmt 23. febrúar sl. og var nótarpoki þá heill,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar sem fyrirskipaði að kafað yrði í allar eldiskvíar á eldissvæðinu til að ganga úr skugga um að sambærileg göt væru ekki á öðrum eldiskvíum.
Enginn lax veiddist í net eða sást við köfun
„Auk þess fyrirskipaði stofnunin að kafað yrði undir þessa tilteknu eldiskví í leit að mögulegum stroklax. Lögð voru út net í grennd við eldiskví í samráði við Fiskistofu til að fanga mögulegan stroklax. Enginn lax veiddist í net eða sáust við köfun undir kví,“ segir Matvælastofnun sem rannsakar nú meðal annars hvort strok hafi átt sér stað og hvort Arnarlax hafi virkjað og farið eftir eigin verklagsreglum og viðbragðsáætlunum.
„Þegar rannsókn lýkur á atburðinum verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og hún birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar,“ segir á mast.is.