„Þetta er voðalegur reytingur,“ sagði Þórhallur Hjaltason, stýrimaður á Aðalsteini Jónssyni SU, sem var á makrílveiðum um miðja vegu milli Íslands og Færeyja er rætt var við hann í gær.
Makrílinn er nú genginn inn í lögsögu Íslands og Þórhallur sagði veiðarnar ganga sæmilega þótt það væri lítið að sjá.
„Það er verið að skrapa inn tíu til fimmtán tonn á togtímann. Við erum að vinna þetta í samveiði. Erum þrjú skip að veiða í eitt skip,“ sagði Þórhallur. Auk Aðalsteins Jónssonar voru tvö önnur skip frá Eskju, Guðrún Þorkelsdóttir SU og Jón Kjartansson SU, á miðunum.
Makrílinn sagði Þórhallur vera stóran, um 500 grömm. „En það er mikið af átu,“ sagði hann. Öllu væri landað til frystingar. „Af því að það er svona mikil áta býst ég við að þetta verði hausað og slógdregið.“
Mikilvægt er að fá makrílinn inn í lögsöguna til okkar. „Þetta er mjög jákvætt. Síðustu tvö ár höfum við ekki verið að veiða hann mikið þannig séð í íslenskri lögsögu. Þetta er eiginlega ekkert ósvipað og var hér áður fyrr nema það er ekki sama magn á ferðinni – til að byrja með að minnsta kosti,“ sagði Þórhallur.
Erfitt er að sjá framhaldið fyrir sagði Þórhallur. „Hann virðist að minnsta kosti ganga mikið sunnar, bara eins og þetta var þegar hann var að koma inn í lögsöguna. Við vorum að byrja á þessum slóðum á sumrin og elta hann upp að landinu,“ útskýrði hann.
Nánar má lesa um málið í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.