„Þyrlan kom öllum gersamlega á óvart. Hún kom úr suðvestri og við vorum annað eða þriðja skipið í röðinni. Ég er sannfærður um að þeir voru búnir að ákveða að taka einn togara undir íslenskum fána og einn hentifánatogara. Tilviljun réði því hver tekinn var af togurunum sem skráðir eru á Íslandi. Hins vegar skoðuðu þeir okkur vandlega áður en þeir sigu um borð, líklega til að bera kennsl á okkur fyrst,“ sagði Jón N. Olsen, færeyskur skipstjóri á Óttari Birting, er Fiskifréttir náðu tali af honum um borð í skipinu í höfninni í Tromsö í síðustu viku.

Algjör talstöðvaþögn

Norska Fiskeribladet hefur greint frá því hvernig norska strandgæslan lagði snörur sínar fyrir íslensku togarana rétt áður en taka Óttars Birtings og Björgúlfs fór fram. Gæsluskipið Kim yfirgaf eftirlitssvæðið til þess að aðstoða Ými eftir að eldur kom upp þar um borð. Skömmu síðar uppgötvaði Orion flugvél gæslunnar að flotinn var kominn 10-15 mílur inn á Svalbarðasvæðið.

Þótt Kim væri horfinn áttaði Smuguflotinn sig ekki á því að gæsluskip undir forystu Senju lágu rétt utan við ratsjársvið togaranna með ströng fyrirmæli um algjöra talstöðvarþögn. Þyrla búin ratsjá var send upp frá Senju og kannaði hún svæðið til þess að afla nánari upplýsinga. Aðgerðir voru samræmdar og skömmu síðar var þyrlan send af stað í hraðflugi að flotanum. Hún flaug rétt yfir haffletinum til að draga úr hættu á að togaranir yrðu hennar varir og eftirleikurinn er öllum kunnur.

Meirihluti aflans tekinn á Svalbarðasvæðinu

En hvernig stóð á því að togararnir tóku þessa áhættu?

Jón svarar: „Áður en Kim fór til hjálpar Ými höfðu öll skipin verið að veiðum 1-4 sjómílur Svalbarðamegin línunnar sem skilur að Smuguna og Svalbarðasvæðið. Norðmennirnir létu það afskiptalaust og stugguðu ekki við okkur. Þegar gæsluskipið hvarf af svæðinu notaði flotinn tækifærið. Allir færðu sig um set innar á Svalbarðasvæðið þar sem fiskiríið var miklu betra. Þetta er ekki óeðlilegt. Íslenskir útgerðarmenn láta eins og þeir viti ekkert um þá staðreynd að meirihluti þorsksins sem skipin veiða í Barentshafi er tekinn á Svalbarða svæðinu í endalausri refskák við norsku strandgæsluna. Yfirleitt er ekkert að hafa í Smugunni. Ég fullyrði að allt að 70 prósent af þorskinum sé tekinn á Svalbarðasvæðinu,“ segir Jón.

Illa sviknir

Strandgæslumenn búast til uppgöngu í Óttar Birting. Mynd/SES
Strandgæslumenn búast til uppgöngu í Óttar Birting. Mynd/SES

Og Jón heldur áfram: „Það svall í okkur baráttumóðurinn þegar við sáum að allur flotinn fylgdi okkur í átt til lands eftir að skipin tvö voru tekin. Sumir sigldu í veg fyrir okkur til þess að sýna að þeir vildu hamla gegn för okkar til Noregs. Gæslumennirnir um borð hjá okkur voru orðnir mjög taugaóstyrkir þegar togararnir loks hættu að fylgja okkur einn af öðrum. Okkur fannst við illa sviknir og þarna rann flotanum gullið tækifæri úr greipum að sýna öfluga samstöðu í verki. Þó er ég ekki í vafa um að all nokkrir skipstjóranna hefðu fylgt okkur alla leið til Tromsö hefðu þeir fengið að ráða. Annars hafa öll samskipti okkar við strandgæsluna og fólk hér í Tromsö verið mjög vinsamleg. Okkur var vel tekið við komuna til lands og höfum bara mætt gestrisni,“ segir Jón.

Slæleg frammistaða stjórnvalda og vill fá skattana endurgreidda

Hins vegar hitnar Jóni í hamsi þegar talið berst að íslenskum stjórnvöldum. „Hér um borð eru allir mjög óánægðir með frammistöðu íslenskra stjórnvalda sem hafa staðið sig mjög illa í Barentshafsdeilunni. Af 24 manna áhöfn eru 20 íslenskir ríkisborgarar og öll áhöfnin borgar skatta til Íslands. Við drögum björg í bú íslenska þjóðfélagsins og teljum okkur ekki á neinn hátt verri en aðrir. Samt sem áður virðast menn á Íslandi ekki einu sinni vera tilbúnir að lyfta litla fingri okkur til hjálpar þegar við erum tekin höndum af erlendu valdi og færð til hafnar. Ég mun krefjast þess að fá þá skatta, sem ég hef hingað til borgað til íslenska ríkisins, endurgreidda,“ segir Jón.

Heimilisföng skipverja á hentifánaskipum fær frá Færeyjum

Fiskifréttir 7. október 1994.
Fiskifréttir 7. október 1994.

Landsstjórnin í Færeyjum fær einnig á baukinn: „Stjórnin hefur staðið sig hörmulega gagnvart Norðmönnum og afsalað sér kvótum við Færeyjar í skiptum fyrir kvóta í Barentshafi. Þetta er í algerri andstöðu við ákvæði Svalbarðasamningsins. Að auki vilja þeir ekkert vita af hentifánaskipunum en nú starfa um 300 færeyskir sjómenn um borð í þeim. Enginn þeirra borgar skatt til Færeyja enda nema skattaálögur á sjómenn þar um 60 prósentum. Menn færa bara heimilisföng sín úr landi.“

Jón er ekki í vafa um hvað beri að gera á Svalbarðasvæðinu. „Menn eiga að veiða þarna af fullum krafti til þess að þrýsta á að hafnar verði samningaviðræður. Svalbarðasáttmálinn á að gilda á öllu Svalbarðasvæðinu og kvótum þar ber að skipta jafnt milli allra þjóða sem aðilar eru að samkomulaginu,“ segir Jón N. Olsen.