Útflutningsbannið var ákveðið á stjórnarfundi í Aflamiðlun nú í byrjun vikunnar en á sama

fundi var samþykkt að skerða útflutningsheimildir fimm annarra útflytjenda um þriðjung. Þá mun sjávarútvegsráðuneytið fara fram á opinbera rannsókn á starfsemi þeirra fyrirtækja sem sannað þykir að hafi flutt út meira magn en gefið er upp í útflutningsskýrslum.

Útflutningsbannið og aðrar aðgerðir Aflamiðlunar koma í kjölfar upplýsinga um að einstakir útflytjendur hafi flutt út mun meira magn af ferskum fiski, aðallega þorski og ýsu, en þeir höfðu leyfi til. Útflutningsleyfum verður ekki úthlutað til fyrirtækjanna fjögurra fyrr en ljóst verður hvernig stjórnvöld munu framfylgja eftirliti með því að úthlutanir Aflamiðlunar séu virtar.

Gruna fölsun útflutningsskjala

Mál þetta snertir þó mun fleiri aðila en bara Aflamiðlun því grunur leikur á að útflutningsskjöl hafi verið fölsuð og jafnvel sé um kvótamisferli að ræða. Tollgæslan vinnur nú að rannsókn málsins en þar fyrir utan mun sjávarútvegsráðuneytið fara fram á opinbera rannsókn á starfsemi þeirra fyrirtækja sem grunuð eru um að hafa falsað útflutningsskjöl.

Fiskifrétti 17. sept 1990.
Fiskifrétti 17. sept 1990.

Samkvæmt upplýsingum Gylfa Gauts Péturssonar, deildarstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, eiga útflytjendur óunnins afla í gámum að tilkynna veiðieftirliti sjávarútvegsráðuneytisins um útflutt aflamagn frá hverju einstöku fiskiskipi, sundurliðað eftir tegundum. Ákvæði þessa efnis er að finna í reglugerð um vigtun sjávarafla frá í fyrra en með brot á reglugerðinni ber að fara að hætti opinberra mála. Ráðuneytinu er jafnframt heimilt að svipta skip veiðiheimildum í tiltekinn tíma vegna brota á reglugerðinni.

Leyfi fimm fyrirtækja skert

„Það verður farið ofan í kjölinn á þessu máli. Ef það kemur í ljós að einhverjir hafi vísvitandi brotið gegn reglugerðinni verða viðkomandi aðilar sóttir til saka,“ sagði Gylfi Gautur Pétursson.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra Aflamiðlunar, var einnig ákveðið á fundi Aflamiðlunar að skerða útflutningsleyfi fimm fyrirtækja um þriðjung, miðað við það magn sem úthlutað hefur verið til viðkomandi fyrirtækja að undanförnu.

Þessir aðilar eru Jón Ásbjörnsson í Reykjavík, Bergur-Huginn hf. í Vestmannaeyjum, Hrellir hf. á Höfn, Seifur hf. í Reykjavík og Vísir hf. í Grindavík. Þessir aðilar hafa orðið uppvísir af því að flytja af og til út meira magn en þeim var úthlutað, en þess má geta að fyrirtækin fjögur sem sett voru í bann fluttu alltaf út meira magn en þau höfðu heimild til.

Aðrir útflytjendur hafa virt úthlutanir Aflamiðlunar.