„Því er skemmst til að svara að þessi útgerð er að sliga mann eftir að leigumarkaðurinn rauk upp. Við róum stóran hluta ársins en það hefur verið tregt í netin og því er enn þá blóðugra að láta stærsta hlutann af kökunni til þeirra sem eiga kvótann,“ sagði Ólafur Arnberg í samtali við Fiskifréttir er rætt var við hann um stöðu kvótalítilla skipa á leigumarkaðinum.
„Kvótaneytandi“
Ólafur Arnberg sagði að staða leiguliða hefði breyst það mikið að þeim verði ekki lýst öðru vísi en svo að þeir væru í dauðateygjunum margir hverjir. Við núverandi leiguverð væri búið að kippa grundvellinum undan starfsemi þeirra.
„Öll þessi kvótalausu skip voru úrelt til hagræðingar á sínum tíma. Eftir að okkur var bent á að hafið væri ekki ruslahaugur var orðið of dýrt að granda gömlum skipum. Þá var farið að leita að vitleysingum til að kaupa þau. Þeir fundu okkur og við sitjum uppi með skipin og skuldirnar sem á þeim hvíla og getum okkur hvergi hreyft. Þetta er alveg eins og í eiturlyfjaheiminum. Ég er „kvótaneytandi“ og þarf á mínum skammti að halda og ég er ekki spurður um verðið. Þetta er ruddamarkaður og hann lýtur engum lögmálum. Leigumiðlarar hringja á milli okkar og skrúfa verðið upp: Þú verður bara að trúa þessu vinur. „Dópið“ kostar meira í dag en í gær. – Það getur allt verið haugalýgi sem þeir segja.“
Útgerðin fær 115 kr. á kg fyrir aflann
Þegar rætt var við Ólaf Arnberg var leiguverðið 155 kr. á kg fyrir þorsk.
„Við leggjum upp hjá Þrótti hf. í Grindavík og erum þar í tiltölulega góðum viðskiptum miðað við hvernig þetta er annars staðar. Við fáum í okkar hlut 115 kr. á kg fyrir þorskinn eftir að búið er að borga leiguna en vinnslan sér okkur fyrir kvótanum. Yfirleitt gerast kaupin þannig á eyrinni nú orðið.“
Getið þið haldið útgerðinni áfram með þessu verði?
„Ég veit það ekki. Það fer eftir aflabrögðunum. Ef þau lagast þá getur þetta hugsanlega gengið en það hefur verið voðalega tregt í netin að undanförnu.“
Eru einhverjir leiguliðar að spjara sig að þínum dómi?
„Sem betur fer gengur fjölda útgerðarmanna vel bæði í þessu kerfi og öðrum en engu að síður er leigan fyrir þennan fisk alltof há. Það er ekkert eðlilegt við þetta verð. Og það er smánarblettur á stjórnvöldum hvernig þau láta þetta allt sem vind um eyrun þjóta.“
Leigan má ekki fara yfir 100 kr. á kg
Hvað telur þú að leiguverðið þurfi að vera?
„Leiguverðið má alls ekki fara yfir hundrað krónur á kíló. Sannast sagna vonaðist ég til þess að það lækkaði. Afurðaverð á saltfiski hefur lækkað eftir mikla hækkun undanfarin misseri. Það er skrýtið að allar hugsanlegar hækkanir á afurðum koma strax fram í hækkun á leigukvóta en við sjáum ekki fram á neina lækkun nú. Það er ekkert vitrænt á bak við þetta.
Spáir þú því þá að fjöldi Eldhamar GK. leiguliða líði undir lok á næsta ári?
„Það verða höggvin stór skörð í hóp leiguliða. Á því er enginn vafi. Við erum óhreinu börnin hennar Evu og enginn vill vita af okkur. Ég geri ráð fyrir því að um 1.000 sjómenn hafi atvinnu sína hjá skipum sem eru háð leigumarkaðinum. Það yrði eitthvað sagt ef þessi skip væru gerð út frá litlu sjávarþorpi úti á landi og byggðarlagið þyrfti að treysta á útgerð þeirra. Þá kæmi annað hljóð í strokkinn.“
Kvótakerfið hefur ekki bjargað þorskinum
„Þetta blessaða kvótakerfi átti aðeins að vera við lýði í smátíma til þess að bjarga þorskinum. Það hefur ekki orðið til þess og við vitum af hverju. Togarar, línubátar og krókabátar drepa smáfiskinn lon og don alla daga og allt árið um kring. Meðan svo er getur þorskstofninn aldrei stækkað. Fyrir hvern einn fisk sem ég drep þá slátra þeir 30. Og þeir hirða kannski 15 og henda 15 sumir hverjir. Þetta eru ekki fleipur því hér talar maður með reynslu.“
Ólafur Arnberg kvað engan fót vera fyrir því að kvótalítil skip gengu verr um auðlindina en önnur skip.
„Við verðum gjarnan fyrir þessum ásökunum og skýringin er sálfræðileg. Eftir því sem maður er aumari á að vera hægt að klína meiru á mann. Ég þekki mörg dæmi um brottkast hjá skipum sem eru með sterka kvótastöðu. Sumir skipstjórar haga sér þannig að þeir ættu aldrei að fá að fara á sjó aftur.“
Almennilegur kvóti á línutvöfölduninni
„Ég græt þá tíð þegar línutvöföldunin var og hét og hægt var að fá almennilegan kvóta. Ég gat alltaf reiknað með því að fá kvóta frá Hjálmi á Flateyri. Hægt var að fá kvótann á lægra verði á föstudögum því Einar Oddur var þá svo blankur. Nú hefur þetta versnað um helming eftir að kvótaþing var lagt af, þó að margt slæmt hefði mátt segja um það aðallega hvað það var þungt í vöfum. Ég vil að kvótaleigan fari í gegnum sjávarútvegsráðuneytið og verðið verði ákveðið fyrir fram. Menn sæki síðan leigukvóta sinn vikulega,“ sagði Ólafur Arnberg að lokum.