Fiskifréttir ræddu við Inga R. Einarsson, skipstjóra á loðnuskipinu Faxa RE, er hann og áhöfn hans biðu þess að loðnuveiðar hæfust.
— Nú hafa menn lagt til að ákveðinn yrði nokkurs konar jafnstöðuafli, lágmarks aflamagn, sem veiða mætti á ári hverju og mönnum væri í sjálfsvald sett hvenær þeir tækju sína aflahlutdeild. Ert þú fylgjandi þessu?

„Ég hef verið talsmaður þess að einhver árlegur lágmarkskvóti væri ákveðinn til lengri tíma. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er meðalaflinn á síðustu 16 loðnuvertíðum, eða frá því að haustveiðar hófust, um 850 þúsund tonn. Að mínu mati væri ekki óeðlilegt að leyfa mönnum að veiða helming þessa magns áður en endanlegur veiðikvóti væri ákveðinn og 400 til 500 þúsund tonna lágmarks byrjunarkvóti væri heppilegur að mínu mati. Þótt loðnan sé torfufiskur og því sé hægt að veiða mikið magn af því sem þannig gengur, þá er alltaf mikið um dreifða loðnu sem aldrei mælist. Ég hef fulla trú á því að þarna sé um mikið magn að ræða,” segir Ingvi.
Fiskifræðingar gerðu mistök
Ingvi hefur að undanförnu tekið þátt í fundarhöldum vegna komandi loðnuvertíðar og hann segir ekkert áþreifanlegt hafa komið út úr þeim nema að ákveðið hafi verið að senda fjögur loðnuskip á miðin með hafrannsóknaskipum upp úr næstu mánaðamótum.
Það eru Höfrungur AK, Sunnuberg GK, Ísleifur VE og Súlan EA sem ríða á vaðið og eiga þau að vera í loðnuleit í hálfan mánuð en þá taka fjögur önnur loðnuskip við af þeim og verða að fram til mánaðamóta.
„Þetta er vissulega af hinu góða en það þýðir þó ekkert að horfa fram hjá því að fiskifræðingum urðu á mistök á síðustu vertíð sem við erum enn að súpa seyðið af. Þeir hafa ekki getað viðurkennt þessi mistök sín og því láta menn eins og að þeir hafi haft rétt fyrir sér. Við höfum annars lagt mjög mikla áherslu á að rannsóknir á loðnunni verði auknar á komandi árum og ég held að allir geti verið sammála um að ekki sé vanþörf á. Það er allt of lítið vitað um loðnuna, eins og reyndar flest alla aðra fiskistofna, og það er því brýnt að efla rannsóknir.“
Sjómenn flýja loðnuskipin
Ingvi segist vera bjartsýnn á að komandi loðnuvertíð verði góð. „Önnur slæm vertíð myndi verða reiðarslag fyrir þessar veiðar og ég er hræddur að það myndu fáir útgerðarmenn senda skip sín á loðnuveiðar ef næsta vertíð bregst. Menn hafa fjárfest í dýrum veiðarfærum sem nú liggja undir skemmdum og það getur enginn keypt 30 til 40 milljón króna loðnunót upp á þau býti. Eins verðum við að hafa í huga að sjómenn eru teknir að flýja loðnuskipin og þeir eru fljótir að ráða sig í önnur pláss ef þau losna. Þetta er slæm þróun því á meðan fjórtán manns eru í áhöfn loðnuskips þá þarf ekki nema sex manna áhöfn á jafn stórt rækjuskip,“ segir Ingi R. Einarsson.