Þórður Magnússon, skipstjóri á Engey, RE hefur verið skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE til fjölda ára við veiðar með botntroll og við úthafskarfaveiðar í flottroll en hvernig tilfinning er það að taka við þessu nýja glæsilega skipi?
„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er fyrst og fremst fjölveiðiskip í uppsjávarveiðum og það er nýtt fyrir mér. Að vísu hef ég verið 15 vertíðir á úthafskarfa að draga flottroll þannig að ég er ekki með öllu ókunnur því veiðarfæri. Ég geri mér grein fyrir því að það setur mikla pressu á mann að taka við þessu skipi því fylgst verður grannt með því hvernig til tekst. Eflaust verður fullt af mönnum til að hampa því ef vel gengur og kannski enn fleiri til að rakka okkur niður ef erfiðir tímar koma.”
Dæla aflanum inn að aftan
Þótt allt sé stærra í sniðum um borð í Engey RE en í öðrum skipum sagði Þórður að veiðarnar yrðu stundaðar með svipuðu sniði og hjá öðrum vinnsluskipum í uppsjávarflotanum.
„Eini munurinn er sá að við dælum aflanum inn að aftan eins og Írar hafa gert til margra ára og Hollendingar og Norðmenn eru farnir að taka upp eftir þeim. Það er einfaldara að eiga við þetta þannig heldur en að dæla aflanum um borð frá síðunni. Við erum með samskonar troll og önnur vinnsluskip. Reyndar tók ég með mér eitt troll sem ég var með á Þerney fyrir karfann. Það var heldur þungt fyrir Þerney en er heppilegt fyrir mun öflugra skip. Ég ætla að fiska síld í þetta troll enda þarf ekki breyta því að neinu ráði nema nota öðruvísi poka.“
Brúin eins og einbýlishús og hægindastólar í bíósal
Brúin í Engey RE er engin smásmíði, um 170 fermetrar að stærð eða eins og eitt einbýlishús. Þórður sagði að þar eins og í öllu skipinu væri mjög rúmt um allt, bæði menn og tæki. Sjálf tækin í brúnni eru svipuð og í öðrum skipum að öðru leyti en því að þar er öflugra asdik og nýtt tæki sem mælir ekki aðeins straum í yfirborði heldur einnig á botni. Þá hafa vistarverur áhafnar vakið athygli. Fyrir utan borðsal eru nokkur sameiginleg rými, setustofur, lesstofur fyrir utan aðstöðu til líkamsræktar. Þá er bíósalur um borð með 11 leðurklæddum hægindastólum (Lay-z-boy) og 44 tommu sjónvarpsskjá.
„Menn eru svolítið hissa á þessum aðbúnaði um borð. Ég veit ekki til þess að hann sé betri í neinu íslensku skipi og raunar er þetta eins og best gerist í heiminum. Hér er vel að öllu staðið og það eru forréttindi að vera á svona skipi,“ sagði Þórður.
Fram kom hjá Þórði að helstu nýmælin í vinnslusalnum væru fjöldi véla og sjálfvirkni. Þar eru sjö alsjálfvirkar VMK flökunarvélar og sjálfvirkt útsláttarkerfi. Fyrir utan flökun á síldinni eru vélarnar stilltar til að „spíka“ kolmunna, þ.e. hausskera hann fyrir frystingu. Stefnt er að því að Engey RE fari í sína fyrstu veiðiferð á mánudaginn eftir sjómannadag.
„Ég bíð spenntur eftir því að komast á sjóinn og prófa skipið á síldveiðum. Eflaust mæta okkur einhverjir byrjunarörðugleikar en ég hef unnið við þetta í 20 ár og líður hvergi betur en í hringiðu veiðanna,” sagði Þórður Magnússon.