Ufsaskotið sem Karl talar um var rúmlega 14 tonna hal sem fékkst 6. desember síðastliðinn og er það með stærri hölum sem þeir hafa fengið.

„Við tókum þetta hal inni í Sandvíkinni á 22 faðma dýpi. Við vorum þá á höttunum eftir þorski, en í suðvestanáttum kemur oft þorskur inn í víkina. Það var því mjög sérstakt að fá þarna ufsa en við eigum því helst að venjast að fá ufsa í Reykjanesröstinni. Enginn á þessum báti man eftir ufsa á þessum slóðum. Þetta kom því skemmtilega á óvart. Við áttum von á öllu öðru en að fá þetta flotta stórufsahal,“ sagði Karl.

Ufsinn 70-120 cm að lengd

Þeir tóku aðeins eitt hal í þessum róðri enda hafði ufsinn horfið jafnharðan. Ufsinn var vænn, mestallur yfir 5 kílóum að þyngd. Það hittist svo á að eftirlitsmaður frá Fiskistofu var með í túrnum og mældi hann ufsann á staðnum og reyndist hann vera 70-120 cm að lengd.

Karl Knútur Olafsson, skipstjóri á dragnótabátnum Erni KE 14.
Karl Knútur Olafsson, skipstjóri á dragnótabátnum Erni KE 14.

„Við veiddum þennan afla í fallaskiptunum og ljósaskiptunum um morguninn. Það kom bátur þarna klukkustund síðar og þá var ufsinn horfinn. Hann stoppar aldrei lengi við. Við fengum 85 krónur á kíló fyrir ufsann óslægt og vorum ánægðir með það verð þótt það sé ekkert í líkingu við þorskverðið í dag,“ sagði Karl.

Tveimur dögum síðar fékk Örn KE 11 tonn af ufsa í Sandvíkinni í tveimur hölum og Karl var því spurður hvort hann hefði orðið var við meiri ufsagengd en áður.

„Við getum ekki dæmt um það út frá okkar reynslu þótt óvenjulegt sé að fá ufsa þarna á þessum tíma. Við vorum inni í Flóanum í haust og höfðum lítið af þessum veiðiskap að segja þá. Hins vegar hafa netabátarnir verið að fá mikinn ufsa og maður heyrir af ufsa víða.“

Stærri sandkoli og hærra verð

Örn KE er með leyfi til dragnótaveiða í Faxaflóa og var þar á kolaveiðum frá 1. september til 15. nóvember en þá hafði sandkolakvóti skipsins klárast.

„Þetta var besta árið í Flóanum í mörg ár en við tókum þar um 220 tonna heildarafla í haust. Við áttum 150 tonna sandkolakvóta og 40 tonna rauðsprettukvóta. Við skildum eftir um 10 tonn af rauðsprettukvótanum til þess að eiga hann sem meðafla í vetur. Við fengum miklu betra verð fyrir sandkolann í ár en í fyrra. Meðalverðið núna var um 80 krónur á kíló en það var 55 krónur á kíló fyrir ári síðan. Skýringin á þessu er sú að sandkolinn var miklu stærri og flokkaðist betur en áður.“

Karl nefndi sem dæmi um vaxtarhraða sandkolans að þeir hefðu fengið fisk sem hefði verið merktur fyrir 10 mánuðum af Hafrannsóknastofnuninni og hann hefði lengst um 10 cm á þessum tíma sem væri mikill vöxtur fyrir ekki stærri fisk.

„Skilyrðin í Flóanum eru miklu betri en í fyrra og hittifyrra. Þá var sjávarhitinn þar 13-14°C og mikill þörungablómi en í ár var hitinn 10-11°C og var kominn niður í 8°C undir það síðasta og enginn þörungagróður.“

Aukning um áramót?

Fiskifréttir 14. desember 2001.
Fiskifréttir 14. desember 2001.

Fram kom í máli Karls að sandkolakvótinn hefði verið skorinn niður um 65% á 2 árum og hann sagði að enginn kvóti hefði verið skorinn jafn hastarlega niður og sandkolakvótinn. Óskir hafa komið fram um að sandkolakvótinn verði aukinn með hliðsjón af betra ástandi stofnsins.

„Dragnótaveiðimenn í Flóanum sátu fund með fulltrúum Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir skömmu og þar kom fram að fiskifræðingar ætla að liggja yfir nýjustu gögnum á jólaföstunni og um áramótin verður niðurstaða þeirra kunngerð. Maður lifir í voninni um að þessi endurskoðun leiði til þess að sandkolakvótinn verði aukinn.“

Karl gerði ráð fyrir því að þeir myndu nota aukninguna, ef af verður, til að dekka meðafla á vertíðinni í vetur en þegar meiri sandkolaveiði var hér á árum áður fengu þeir oft um 100 tonn af sandkola á vertíðinni utan Faxaflóans.

Karl sagði að sér virtist ástand skarkolans vera ögn betra en áður og væri hann því hægt og rólega að rétta úr kútnum þótt batinn væri ekki eins ör og hjá sandkolanum.

Búnir með ufsakvótann

Eftir að veiðunum lauk í Faxaflóa hefur Örn KE aðallega haldið sig við Reykjanesið en einnig reyndu þeir við þorsk við Snæfellsnesið.

„Við höfum lítið róið að undanförnu. Við tókum þessi 25 tonn af ufsa og erum þar með búnir með ufsakvótann okkar. Það er fátt um fína drætti á þessum tíma, helst að maður treysti á þessi skot sem koma í suðvestanáttinni eftir stórviðri. Annars má nú búast við því að þorskurinn fari að ganga á grunnslóð þegar líður á desember. Það hefur verið dauft hér við Reykjanesið. Við erum þessa stundina á stíminu í þeirri von að sjá eitthvert líf en það er lítið að hafa. Við tökum sennilega stefnuna aftur á Snæfellsnesið en þar hefur verið ágætis þorskafli að undanförnu,“ sagði Karl Knútur Ólafsson.