„Ég byrjaði á sjó á togunum í kringum 1950. Þá var umgengnin um fiskistofnana með slíkum ólíkindum að ég get varla sagt frá því. Ef við vorum á salti var ekkert heilagt nema þorskurinn. Ufsi var kannski settur niður í lest ef hann var feitur og góður, en öllu öðru sem álpaðist í veiðarfærið, steinbíti, hlýra, smálúðu og svo framvegis, var umsvifalaust kastað fyrir borð. Engin lúða var svo stór að hún færi ekki út um lensportið, væri hún ekki étin um borð,“ sagði Gísli Jón Hermannsson, útgerðarmaður í Ögurvík, samtali við Fiskifréttir í desember 1998.

„Karfinn var á þessum árum fiskaður í gúanó. Ég tók þátt í þeim veiðiskap, ég held sumarið 1951, og við lönduðum aflanum í verksmiðju á Ingólfsfirði. Allur flotinn var þá að veiða karfa í gúanó. Reyndar var löng hefð fyrir því að sigla með ísaðan karfa á Þýskalandsmarkað en það var ekki siglt á sumrin og auk þess takmörk fyrir því hvað markaðurinn tók. Sama var að segja um ufsann. Menn djöfluðust í honum fram og aftur á haustin og seldu hann ísaðan á Þýskalandsmarkaði en þess utan fór hann í gúanó. Í  fyrsta túrnum mínum á togara vorum við að fiska ufsa hér suður á Selvogsbanka í byrjun febrúar. Þetta voru allt stórir og miklir ufsar sem látnir voru heilir niður í lest og síðan landað með kjafti í gúanó. Það hefur sjálfsagt verið gott verð á gúanóinu þá. Síðan fórum við á salt og þá notuðum við fremri lestina undir saltfisk og aftari lestina undir gúanófisk. Þangað hentum við ufsanum og öðrum fiski sem flæktist með,“ sagði Gísli Jón.

Blessaður, sísvangi Rússinn

„Það er ekki fyrr en Rússinn fer að borða karfa sem við byrjum að flaka hann og frysta. Blessaður Rússinn hefur alltaf bjargað okkur því hann er sísvangur. Hann byrjaði líka að borða grálúðuna okkar sem enginn leit við áður, ef frá er talið eitthvert smotten sem saltað var í tunnur fyrir Hollendinga eða selt  Þjóðverjum  til reykingar. Við fórum því að selja Rússanum grálúðu frysta með haus og hala. Seinna gerist það svo þegar frystitogararnir koma til sögunnar, að Japaninn uppgötvar hve góður matur sjófrystur karfi og sjófryst grálúða er. Verðið hækkar og viðskiptin  beinast  frá Rússlandi til Japans. Núna síðast er Rússinn svo farinn að borða gulllax sem erfitt var að losna við áður. Því miður lokaðist á þau viðskipti fyrir nokkrum  mánuðum  vegna efnahagskreppunnar þar eystra en vonandi rætist úr því,“ sagði Gísli Jón.

Fiskifréttir 18. desember 1998.
Fiskifréttir 18. desember 1998.

Togað eftir humri í brúðkaupsveislu

„Humarveiðar voru ekki stundaðar á þessum árum og fengist humar í trollið var honum fleygt. Ég man eftir atviki sem gerðist fyrsta veturinn sem ég var á togara. Við vorum að toga á Selvogsbanka eina nóttina og fengum upp svolítið af humri, svona í hálfa körfu, en lítið af öðru. Ég hafði aldrei séð humar fyrr, enda finnst hann ekki fyrir vestan, en strákur sem var með mér kannaðist við þessa skepnu og bað mig að hirða hana upp. Við fórum síðan aftur í og sturtuðum humrinum lifandi í stóra pottinn kokksins. Það var eins gott að kokkurinn var sofandi. Eftir nokkurra mínútna suðu bárum við pottinn á milli okkar út á dekk og gæddum okkur á humrinum. Þvílíkur gæðahumar! Síðan hef ég verið humaræta. Ég held að menn hafi ekki vitað  mikið um humarstofninn á þeim tíma. Á sumrin voru  togararnir  ekki á þeim svæðum þar sem humarinn heldur sig aðallega, enda engan þorsk þar að hafa á þeim tíma. Einhverjir voru þó farnir að komast upp á lag með að éta humar. Ég var með einum skipstjóra sem ætlaði að fara að gifta dóttur sína. Það var komið fram á vor og við vorum suður á banka. Við fórum þá á einhvern sérstakan stað og tókum eitt hal með stórriðnu trolli til þess að fá humar. Ég held að afraksturinn hafi verið hátt í tvær körfur af humri. Sjálfsagt hefur humarinn gert lukku í veislunni,“ sagði Gísli Jón.

Ótrúleg breyting til batnaðar

„Það hefur orðið ótrúleg breyting til batnaðar á umgengninni um auðlindina. Breytingin hefur aðallega orðið eftir að kvótinn kom og við fórum að takmarka veiðarnar. Jafnframt hefur meðferð á fiskinum stórbatnað. Við hjá þessari útgerð leggjum áherslu á að skipin okkar hirði allan fisk. Ég hef aldrei séð tilganginn í því að kasta fiski og eyða olíu tvisvar í að veiða hann. Ýmsir spekingar kveða sér hljóðs og spyrja: Af hverju hirðið þið ekki þennan fisk eða hinn fiskinn. Þeir átta sig ekki á því að við erum svo peningagráðugir að við hirðum allt sem við getum fengið eitthvað fyrir. Við höfum reyndar oft tapað á ýmsum tegundum sem við höfum hirt og aflinn lent í gúanó. Ég get sagt þér að við töpuðum til dæmis á gulllaxinum sem við fiskuðum í fyrra. En staðreyndin er sú að við erum tilbúnir að hirða allt nema ljóst sé að við fáum ekki einu sinni fyrir löndunarkostnaði,“ sagði Gísli Jón Hermannsson að lokum.

„Ég byrjaði á sjó á togunum í kringum 1950. Þá var umgengnin um fiskistofnana með slíkum ólíkindum að ég get varla sagt frá því. Ef við vorum á salti var ekkert heilagt nema þorskurinn. Ufsi var kannski settur niður í lest ef hann var feitur og góður, en öllu öðru sem álpaðist í veiðarfærið, steinbíti, hlýra, smálúðu og svo framvegis, var umsvifalaust kastað fyrir borð. Engin lúða var svo stór að hún færi ekki út um lensportið, væri hún ekki étin um borð,“ sagði Gísli Jón Hermannsson, útgerðarmaður í Ögurvík, samtali við Fiskifréttir í desember 1998.

„Karfinn var á þessum árum fiskaður í gúanó. Ég tók þátt í þeim veiðiskap, ég held sumarið 1951, og við lönduðum aflanum í verksmiðju á Ingólfsfirði. Allur flotinn var þá að veiða karfa í gúanó. Reyndar var löng hefð fyrir því að sigla með ísaðan karfa á Þýskalandsmarkað en það var ekki siglt á sumrin og auk þess takmörk fyrir því hvað markaðurinn tók. Sama var að segja um ufsann. Menn djöfluðust í honum fram og aftur á haustin og seldu hann ísaðan á Þýskalandsmarkaði en þess utan fór hann í gúanó. Í  fyrsta túrnum mínum á togara vorum við að fiska ufsa hér suður á Selvogsbanka í byrjun febrúar. Þetta voru allt stórir og miklir ufsar sem látnir voru heilir niður í lest og síðan landað með kjafti í gúanó. Það hefur sjálfsagt verið gott verð á gúanóinu þá. Síðan fórum við á salt og þá notuðum við fremri lestina undir saltfisk og aftari lestina undir gúanófisk. Þangað hentum við ufsanum og öðrum fiski sem flæktist með,“ sagði Gísli Jón.

Blessaður, sísvangi Rússinn

„Það er ekki fyrr en Rússinn fer að borða karfa sem við byrjum að flaka hann og frysta. Blessaður Rússinn hefur alltaf bjargað okkur því hann er sísvangur. Hann byrjaði líka að borða grálúðuna okkar sem enginn leit við áður, ef frá er talið eitthvert smotten sem saltað var í tunnur fyrir Hollendinga eða selt  Þjóðverjum  til reykingar. Við fórum því að selja Rússanum grálúðu frysta með haus og hala. Seinna gerist það svo þegar frystitogararnir koma til sögunnar, að Japaninn uppgötvar hve góður matur sjófrystur karfi og sjófryst grálúða er. Verðið hækkar og viðskiptin  beinast  frá Rússlandi til Japans. Núna síðast er Rússinn svo farinn að borða gulllax sem erfitt var að losna við áður. Því miður lokaðist á þau viðskipti fyrir nokkrum  mánuðum  vegna efnahagskreppunnar þar eystra en vonandi rætist úr því,“ sagði Gísli Jón.

Fiskifréttir 18. desember 1998.
Fiskifréttir 18. desember 1998.

Togað eftir humri í brúðkaupsveislu

„Humarveiðar voru ekki stundaðar á þessum árum og fengist humar í trollið var honum fleygt. Ég man eftir atviki sem gerðist fyrsta veturinn sem ég var á togara. Við vorum að toga á Selvogsbanka eina nóttina og fengum upp svolítið af humri, svona í hálfa körfu, en lítið af öðru. Ég hafði aldrei séð humar fyrr, enda finnst hann ekki fyrir vestan, en strákur sem var með mér kannaðist við þessa skepnu og bað mig að hirða hana upp. Við fórum síðan aftur í og sturtuðum humrinum lifandi í stóra pottinn kokksins. Það var eins gott að kokkurinn var sofandi. Eftir nokkurra mínútna suðu bárum við pottinn á milli okkar út á dekk og gæddum okkur á humrinum. Þvílíkur gæðahumar! Síðan hef ég verið humaræta. Ég held að menn hafi ekki vitað  mikið um humarstofninn á þeim tíma. Á sumrin voru  togararnir  ekki á þeim svæðum þar sem humarinn heldur sig aðallega, enda engan þorsk þar að hafa á þeim tíma. Einhverjir voru þó farnir að komast upp á lag með að éta humar. Ég var með einum skipstjóra sem ætlaði að fara að gifta dóttur sína. Það var komið fram á vor og við vorum suður á banka. Við fórum þá á einhvern sérstakan stað og tókum eitt hal með stórriðnu trolli til þess að fá humar. Ég held að afraksturinn hafi verið hátt í tvær körfur af humri. Sjálfsagt hefur humarinn gert lukku í veislunni,“ sagði Gísli Jón.

Ótrúleg breyting til batnaðar

„Það hefur orðið ótrúleg breyting til batnaðar á umgengninni um auðlindina. Breytingin hefur aðallega orðið eftir að kvótinn kom og við fórum að takmarka veiðarnar. Jafnframt hefur meðferð á fiskinum stórbatnað. Við hjá þessari útgerð leggjum áherslu á að skipin okkar hirði allan fisk. Ég hef aldrei séð tilganginn í því að kasta fiski og eyða olíu tvisvar í að veiða hann. Ýmsir spekingar kveða sér hljóðs og spyrja: Af hverju hirðið þið ekki þennan fisk eða hinn fiskinn. Þeir átta sig ekki á því að við erum svo peningagráðugir að við hirðum allt sem við getum fengið eitthvað fyrir. Við höfum reyndar oft tapað á ýmsum tegundum sem við höfum hirt og aflinn lent í gúanó. Ég get sagt þér að við töpuðum til dæmis á gulllaxinum sem við fiskuðum í fyrra. En staðreyndin er sú að við erum tilbúnir að hirða allt nema ljóst sé að við fáum ekki einu sinni fyrir löndunarkostnaði,“ sagði Gísli Jón Hermannsson að lokum.