Drífa VE er rúmlega 40 ára gamalt stálskip, smíðað í A-Þýskalandi árið 1956. Það hefur stundað togveiðar mörg undanfarin ár og þar sem það hefur verið undir 26 metrum að lengd hefur það haft leyfi til togveiða upp að þremur mílum frá landi. Með breytingum á reglugerð um sl. áramót var opnað fyrir þann möguleika að skip allt að 29 metrar að lengd og með aflvísi undir 1600 gætu stundað togveiðar upp að þriggja mílna mörkunum og samkvæmt því mátti lengja þriggja mílna bátana um allt að þrjá metra án þess að þeir ættu á hættu að missa leyfið til að stunda umræddar veiðar.

Nýr kjölur settur á skipið

Ingvi S. Sigurgeirsson útgerðarmaður ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Oddnýju Garðarsdóttur og börnunum Garðari, Sigurbjörgu, Kára og Erlingi Geir.
Ingvi S. Sigurgeirsson útgerðarmaður ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Oddnýju Garðarsdóttur og börnunum Garðari, Sigurbjörgu, Kára og Erlingi Geir.

Hönnun og teikningar á breytingunum á Drífu VE voru í höndum Verkfræðistofunnar Fengs hf. í Hafnarfirði. Samið var við skipasmíðastöðina Moska Stosnia Remotova í Póllandi um breytingarnar og var skipið komið til Póllands 27. nóvember sl.

Samkvæmt verksamningi áttu breytingarnar að taka 69 daga en vegna mistaka tók verkið alls um fjóra mánuði. Að sögn Ingva kom í ljós að dekk skipsins stóðust ekki á eftir lenginguna og því varð að skera lengda hlutann af og setja hann á að nýju. Ingvi segir stöðina bera kostnaðinn, sem af verkinu hlaust, en útgerðin tapi óhjákvæmilega nokkrum fjármunum vegna tafa frá veiðum og kostnaðar við uppihald í Póllandi.

Svo vikið sé nánar að breytingunum á Drífu VE þá var skipinu slegið út að aftan um leið og það var lengt. Nýtt dekk var smíðað í skipið og er það mun hærra en gamla dekkið. Frá hvalbak og aftur undir keis er hækkunin 50 sentímetrar en einn metri þar fyrir aftan. Eftir breytingarnar hefur fríborð skipsins aukist til muna og segir Ingvi að það hafi verið orðið tímabært að bæta sjóhæfni skipsins.

Af öðrum breytingum má nefna að settur var nýr ballestarkjölur á skipið og vegur hann alls um fjögur tonn. Sett voru slyngubretti á skipið og komið var fyrir nýjum toggálga úr stáli. Fyrir aftan brúna var smíðaður nýr skipstjóraklefi.

Nýjar vindur frá Ósey hf.

Að sögn Ingva var tækifærið einnig notað til þess að sandblása skipið utan sem innan. Lestin var einangruð og fyrirkomulagi breytt til þess að bæta meðferð aflans. Fyrir breytingarnar rúmaði lestin alls 30 fiskikör og einnig var aflinn geymdur í stíum. Framvegis verður allur aflinn geymdur í körum og rúmar lestin nú 60 fiskikör.

Fiskifréttir 24. apríl 1998.
Fiskifréttir 24. apríl 1998.

Þrátt fyrir að skipið hafi ekki verið lengt um miðjuna á það nú að bera svipað aflamagn og fyrir breytingarnar. Allar spillagnir á dekki eru nýjar og voru þær lagðar úr ryðfríu stáli. Keypt var ný fótreipistromla með vindu og grandaravinda og eru báðar vindurnar frá Ósey hf. í Hafnarfirði. Með kaupunum á þessum nýju vindum aukast togveiðimöguleikar skipsins til muna.

Að sögn Ingva reyndist einnig nauðsynlegt að skipta um nokkuð af stáli í síðum skipsins og alls voru um 10 fermetrar af síðunum endurnýjaðir í Póllandi. Þá var skipið öxuldregið og stýrisvél þess yfirfarin. Loks var skipið allt málað með Hempels skipamálningu frá Slippfélaginu Málningarverksmiðju en málningin var send utan með skipinu þegar það fór í breytingarnar.

Aukinn ganghraði

Drífa VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum um sl. mánaðamót og segir Ingvi að skipið hafi reynst mjög vel á heimleiðinni. Breytingarnar á kilinum og skrokklaginu hafa haft það í för með sér að skipið er hærra í sjó og viðbragðsmeira fyrir vikið. Hefur það bætt verulega við ganghraðann og er hann nú 10,3 sjómílur.

Sjö manns eru í áhöfn Drífu VE. Skipstjórar verða Ingvi og Hallgrímur Guðmundsson en vélstjóri er Jón Einarsson. Kvóti skipsins er um 500 tonn miðað við þorskígildi og er megnið af honum óveitt.