Fjarðarorka vinnur að undirbúningi á Austurlandi til að framleiðslu á 220 þúsund tonn af ammoníaki til að knýja orkuskipti í skipum. Bakhjarl Fjarðarorku er danska sjóðsstýringarfyrirtækið CIP, (Copenhagen Infrastructure Partners), sem sérhæfir sig í stýringu sjóða sem fjárfesta í verkefnum sem knýja fram græn orkuskipti í heiminum. Jens Jødal Andersen, aðstoðarframkvæmdastjóri skipaeldsneytis hjá CIP, var staddur hér á landi nýlega og segir Íslendinga standa frammi fyrir einstæðu tækifæri til að framleiða eldsneyti fyrir allan sinn skipaflota.
Vindorkugarður í Fljótsdalshreppi
Á heimasíðu Fjarðarorku segir að með framleiðslu á rafeldsneyti á Reyðarfirði og nýtingu þess til orkuskipta sé metið að hægt sé að draga úr útblæstri koltvísýrings um 500 þúsund tonn á ári. Mæld losun frá sjávarútvegi á Íslandi árið 2021 var 565 þúsund tonn og 860 þúsund tonn frá vegasamgöngum. Til að afla grænnar raforku til rafeldsneytisframleiðslunnar áformar Fjarðarorka að byggja upp 350 MW vindorkugarð í Fljótsdalshreppi. Gerðir hafa verið lóðaleigusamningar við landeigendur og er undirbúningur vegna leyfa, skipulagsmála og umhverfismats hafinn. Fjarðarorka er í fullri eigu fjárfestingasjóðsins CI ETF I, sem er tileinkaður fjárfestingum í verkefnum tengdum grænu rafeldsneyti. Sjóðnum er stýrt af CIP.
„Sá sjóður innan CIP sem ég tengist fjárfestir í svokölluðum „afl fyrir x“ verkefnum. Aflið stendur fyrir raforku og x-ið fyrir mismunandi orkugjafa sem geta verið vetni, ammoníak eða metanól. Við erum núna þátttakendur í 10 verkefnum víðs vegar um heiminn sem eru mismunandi langt komin í þróun en verkefnin eru öll á stöðum í heiminum þar sem vindasamt er eða sólríkt því þar er hægt að framleiða endurnýjanlega orku. Það er kannski ekki sólríkt á Íslandi en hér er vindur og vatnsorka og við höfum sett í gang verkefni hér á landi sem fellur innan þessa ramma,“ segir Andersen.
Hann segir að þess sé vænst að sjávarútvegur verði stórnotandi ammóníaks fyrir skip. Einnig sé fyrirhugað að framleiðsla á grænu ammóníaki á Íslandi verði útflutningsvara til landa í norðvesturhluta Evrópu.
Verða að stefna að kolefnishlutleysi
„Við getum framleitt yfir 200 þúsund tonn af ammóníaki á Íslandi árlega. Sú framleiðsla dygði til að sinna helmingi eldsneytisþarfar íslenska fiskiskipa- og farskipaflotans. Við vitum að orkuskipti á slíkum skala taka talsverðan tíma. Framundan er löng vegferð með mörgum tæknilegum áskorunum. Við erum í samstarfi við nokkur mjög áhugaverð innlend fyrirtæki og rætt er um hvernig hægt er að hefja þessa vegferð með yfirveguðum hætti. Gætu sjávarútvegsfyrirtæki innleitt þessa tækni til dæmis fyrir eitt skip til að byrja með, lært á tæknina og séð hvernig framvindan verður? Þegar allt kemur til alls verður sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, að stefna að kolefnishlutleysi. Spurningin er miklu fremur sú hvernig því markmiði verði náð.“
Vélar á lokastigum þróunar
Stórar tvígengis skipavélar sem nota ammoníak sem orkugjafa eru á lokastigum þróunar, til að mynda hjá MAN og WinGD (Wintertur Diesel í Sviss). MAN hefur lýst því yfir að fyrsta vélin þessarar gerðar verði afhent innan sex mánaða. Andersen segir að nú þegar hafi á heimsvísu borist pantanir á ammoníakvélum fyrir um 60 skip sem verða sjósett á tímabilinu 2027 og 2028.
„Tæknin er því tilbúin. Verkefni sem þarf að leysa eru innviðir, flutningar, öryggismál og fleira og það er allt saman á fullri ferð,“ segir Andersen.
Einstök staða
Hann segir að Ísland sé í einstæðri stöðu til framleiðslu á grænu rafeldsneyti. Hér séu vatnsaflsvirkjanir og enginn skortur á vindi. Um sé að ræða einstakt tækifæri og hann vonast til þess að Íslendingar nýti sér þessa stöðu til orkuskipta í eigin skipaflota en einnig sem tækifæri til útflutnings á grænu rafeldsneyti. Andersen bendir á að láti íslenskur sjávarútvegur og kaupskipaútgerð hjá líða að huga að orkuskiptum og kolefnishlutleysi gæti það leitt til mikils kostnaðar fyrir fyrirtækin til framtíðar litið. Meginhluti starfsemi þessara fyrirtækja er innan lögsögu Evrópusambandsríkja. Búið er að innleiða Evrópureglugerðir á þessu sviði og hugi íslensk fyrirtæki ekki að skiptum yfir í hreinni orkugjafa glati þau samkeppnisstöðu sinni.
„Við höfum leitt íslenskum samstarfsfyrirtækjum sem stunda siglingar innan lögsögu Evrópusambandsríkja fyrir sjónir að við þeim blasi arðbær viðskiptamódel í kjölfar orkuskipta strax á árinu 2035. Þrátt fyrir hærra verð á ammoníaki en olíu verði í raun hagkvæmari kostur að sigla skipunum fyrir hreinni orku til þess að forðast gjöld sem ella yrðu lögð á þau. Ísland stendur einnig frammi fyrir því tækifæri að koma á fót sinni eigin eldsneytisframleiðslu fyrir skipaflota sinn og þyrfti þá ekki að reiða sig á aðra um eldsneyti.“