Hjónin Malín Brand og Þórður Bragason búa á Suðureyri á fæðingarstað Þórðar. Þaðan gerir hann út bátinn Rúnar ÍS 436 á strandveiðar. Þannig sér Malín fyrir sér upphafsdag strandveiða sem á síðustu árum hefur orðið sumarboðinn hennar:

„Þetta er alltaf svo spennandi dagur. Fyrsti dagur strandveiða. Dagurinn sem hefur á síðustu árum orðið sumarboðinn minn.

Hér ætla í að lýsa hvernig ég upplifi þennan fyrsta dag strandveiða og er það burtséð frá allri pólitík og svoleiðis. Já og svo er rétt að nefna að ég sé þetta af landi því ekki fer ég sjálf á sjóinn heldur sér Doddi, maðurinn minn, um þennan þátt tilveru okkar.

Eldri bátur Malínar og Dodda, Vonin ÍS.
Eldri bátur Malínar og Dodda, Vonin ÍS.

Á fyrsta degi eru alltaf einhverjir sem lenda í vandræðum. Blessunarlega oftast minni háttar vandræðum og þá er rétt að tala um spennu:

Hverjir verða dregnir í land? Missir einhver mótor eða lendir í veseni með bilaða sjódælu. Hverjir verða „reknir upp úr“ af einhverjum ástæðum?

Svo er það skammturinn, blessaður skammturinn sem þetta snýst nú um. Hver veiðir næst 774 kílóunum þann daginn.

Klukkan hvað fóru hinir og þessir af stað, hversu langt út og hver lagði af stað í land fyrstur? Það er ekki þar með sagt að sá hinn sami verði fyrstur í land.

Þetta er spennandi. Já og hve stór var þorskurinn? Var þetta blandaður góður, blandaður stór eða voru þetta kannski átta plús eða álíka beljur?

Þetta er ekki beint keppni en það ríkir samt keppnisandi og það er auðvitað glæsilegt að vera með skammtinn upp á kíló. Það er líka í lagi að vera nálægt því en þó ekki langt yfir.

Þannig eru leikreglurnar og eins og í öðrum spilakerfum þá er best ef allir lesa og fylgja sömu leikreglum; 774 kíló, ekki vera lengur úti en 14 tíma og þú mátt fara af stað strax eftir miðnætti. Já, mikið rétt, ekki á föstudögum heldur mánudaga til fimmtudaga.

Auðvitað eru reglurnar ítarlegri en svona eru þær í grunninn. Eins og ég sé þær af mínum vinnustað sem er ofansjávar og góðum átján metrum betur. Og staðsetningin er oftast sú sama, eða 66°norður og svo framvegis.

Svo eru sumir sem fara á sjóinn og sækja bara „sinn skammt“ og hætta þegar þeir eru komnir með nóg þann daginn og langar kannski bara að fara heim og gera eitthvað annað.

Malín Brand.
Malín Brand.

Einn sjómaðurinn hér á Suðureyri svarar mér alltaf játandi þegar ég spyr, að veiði lokinni, hvort hann hafi náð skammtinum: „Já, ég náði honum. Mínum skammti,“ svarar hann þá sposkur og er sáttur við sitt þar sem hinn nákvæmlega rétti skammtur ákvarðast af því hvernig liggur á sjómanninum þann daginn.

Nú er ljóst að um 800 bátar eru skráðir til leiks um landið allt og hér á Suðureyri eru þeir yfir tuttugu.

Það er svo skemmtilegt að fylgjast með strandveiðifólkinu ganga niður á bryggju í morgunroðanum á þessum dásamlegasta tíma ársins að ég má til að reyna að koma þessu í orð.

Að sjá strandveiðimennina (og auðvitað konuna) fara hljóðlega að heiman, til að vekja ekki sofandi fjölskylduna, með nestispoka og í friðsæld morgunsins ganga þeir léttstígir sem leið liggur niður á bryggju.

Þeir setja, einn af öðrum, í gang og fara loks af stað og hljóðlega kljúfa nýbotnmálaðir bátarnir spegilsléttan hafflötinn.

Gulur á hverjum krók. Mynd/Malín
Gulur á hverjum krók. Mynd/Malín

Þegar komið er út fyrir brjót er í lagi að gefa aðeins í og láta græjuna á hærri snúning. Skellirnir, þegar snerting báts og sjávar verður nánari, hljóma eins og klapp og sjófuglar sem skjótast undan þessu magnaða furðufari róast á ný, vaggandi þar til hægist á öllu og verður þá hljótt á ný á Suðureyri. Um stund, því svo eftir ævintýri dagsins úti á miðunum þarf auðvitað að koma fiskinum í land og þá er nú ekki kyrrðin eins og um morguninn. Nei, nú upphefst nefnilega mikið fjör þegar byrjað er að landa.

Bátarnir tínast í land einn af öðrum og stundum koma þeir margir í einu. Þá tekur við löndunarröð en hana sé ég ekki héðan úr stofuglugganum. Það sem ég sé hins vegar er löndunarkraninn á fleygiferð og lyftaraökumenn sem leika listir sínar og ef einhvern tíma hefur verið tækifæri til að sýna ökuleikni með barmafull fiskikör á fljúgandi ferð þá er það núna.

Mávarnir og aðrir fiðraðir og fljúgandi hafnarsvæðisunnendur fylgjast með og væru eflaust glottandi lymskulega ef goggurinn byði upp á það.

Þeir fá alltaf eitthvað í gogginn en ekki upp úr þessum körum. Samt, það er aldrei að vita nema fiskur lendi utan kars, slíkur er hamagangurinn á höfninni.

Malín er listamyndasmiður eins og myndin ber með sér.
Malín er listamyndasmiður eins og myndin ber með sér.

Ég sé að minn maður er búinn að þrífa bátinn og skola það sem ég er þakklát fyrir að þurfa ekki að koma nálægt.

Þá ætti allt að vera klárt um borð fyrir næsta strandveiðidag sem að öllum líkindum verður árla næsta morgun ef þannig viðrar.

En áður en heim er haldið er eins gott að koma við í vigtarskúrnum því ekki er vænlegt að koma heim án nýjustu talna. Og hver veit nema í vigtarskúrnum sé kaffisopa að fá."