Sjálfstæðum fiskvinnslum, þ.e.a.s. vinnslum sem ekki eru einnig í útgerð, hefur fækkað umtalsvert á síðustu árum. Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ), segir að þessu fylgi skert vinnslugeta innanlands og þess sjái stað í lækkandi fiskverði á mörkuðum.

Þrjár stórar vinnslur hafa hætt starfsemi á undanförnum árum, þ.e. Toppfiskur, Frostfiskur og Ísfiskur, með mörg hundruð starfsmönnum. Þessi þrjú fyrirtæki keyptu á bilinu 20-25 þúsund tonn af fiski á fiskmörkuðum árlega.

„Það munar um minna fyrir fiskmarkaðina sem bjóða upp um 100 þúsund tonn á ári. Að sjálfsögðu hafa aðrar vinnslur komið í staðinn að einhverju leyti en um leið hefur gámaútflutningur dregist saman milli ára. Það hefur verið einmuna blíða síðustu vikur og mikið af fiski borist á land. En þá kemur í ljós að vinnslugeta þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem kaupa fisk á innanlandsmarkaði er bara minni en áður var,“ segir Arnar.

Innan SFÚ eru um 30 fyrirtæki en stærri fyrirtækjunum hefur fækkað. Innan vébanda samtakanna eru einnig fyrirtæki sem sjá sér hag í því að flytja fisk út óunnin í gámum. Það skili einfaldlega betri afkomu í sumum tilvikum en að vinna fiskinn hér heima. Þetta er kannski þróun sem ekki margir sáu fyrir því samtökin hafa alla tíð barist með oddi og egg gegn slíkum útflutningi.

Arnar Atlason er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.
Arnar Atlason er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Markaðsöflin ráði   

„Við höfum alltaf barist fyrir því að allur fiskur sé boðinn til sölu á uppboði. En við eigum mjög erfitt með það að tala gegn því að fiskur sé fluttur heill til vinnslu erlendis ef það skilar fyrirtækjum bestu afkomunni. Í grunninn teljum við samt að það ætti að auka vinnslu á Íslandi frekar en að draga úr henni. Engu að síður erum við félagsskapur sem talar fyrir því að markaðsöflin fái að ráða og að hæstbjóðandi á fiskmarkaði fái fiskinn. Meginþráðurinn í okkar málflutningi hefur verið sá að tala gegn því að útgerðirnar fái fisk á afsláttarkjörum og það hefur ekkert breyst.“

Arnar segir að þrátt fyrir að fyrirtæki innan vébanda SFÚ flytji út óunninn fisk til vinnslu erlendis sé það bjargföst skoðun samtakanna að stefna beri að aukinni vinnslu á fiski innanlands sem sé þjóðhagslega hagkvæmt, hefur minna kolefnisspor og er liður í þeirri umræðu sem er hafin hérlendis um matvælaöryggi.