Íslensku uppsjávarskipin eru byrjuð á makrílveiðum í Smugunni. Skipin þrjú sem Brim hf. gerir út, Venus NS, Víkingur AK og Svanur RE héldu til makrílleitar í síðustu viku, sigldu suður með landi og tóku síðan strikið til austurs út í Smuguna þar sem leitin skilaði loks árangri.

Venus kom til Vopnafjarðar á mánudag með 1.640 tonn og hélt aftur af stað til veiða á miðvikudag.

Kristján Þorvarðarson skipstjóri segir að það hafi tekið tvo sólarhringa að fylla Venus loks þegar fiskurinn fannst. Skipin þrjú hafa með sér veiðisamstarf þannig að eitt skip tekur við afla frá hinum og siglir með hann í land þegar nóg er komið.

„Við vorum búnir að leita lengi, búnir að krussa þetta bæði við Ísland og svo í Smugunni talsvert áður en við fundum þetta. Það voru engir komnir út þegar við fengum þetta. Við vorum einir þarna í Krikanum, en það er að fjölga í hópnum. Þeir eru að koma frá Hornafirði og Fáskrúðsfirði.“

Fleiri að byrja

Síldarvinnsluskipin þrjú, Börkur, Beitir og Barði, héldu af stað nú í vikunni og verða í Smugunni í veiðisamstarfi við Vilhelm Þorsteinsson EA og Margréti EA. Kristján segir enga Norðmenn hafa verið sjáanlega en Færeyingar séu byrjaðir á makríl.

„Þeir voru samt 100 mílum sunnar, í sinni lögsögu bara. Svo eru Rússarnir náttúrlega mættir. En þeir fóru bara strax í færeysku af því það var svo lítið að frétta þarna. Þeir mega veiða eitthvað í færeysku. Það er allt opið hjá Færeyingunum.“

Frekar smár

Hann segir fiskinn hafa verið frekar smáan, um 300-350 gramma meðalvigt. Það lofi hins vegar góðu.

„Það var mjög gott að fá fisk, líka af því við sáum smáa fiskinn ekkert í fyrra. Það var mjög gott að sjá hann upp á framhaldið, upp á framtíðina.“

Þegar líður eitthvað fram á sumarið vonast hann til þess að makríllinn verði kominn inn í íslensku lögsöguna.

„Það voru allar aðstæður í íslensku lögsögunni sem gáfu tilefni til þess að þar gæti verið fiskur. Það var heitt og það var mikið líf, hitaskil og svona. Það vantaði bara fiskinn en hann hlýtur að skila sér á Íslandsmið. Ég hef trú á því.“