Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í heimahöfn í vikunni. Vestmannaey landaði á þriðjudag og Bergur á miðvikudag. Heimasíðan Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana og spurði frétta. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, lét vel af veiðiferðinni.
Lítið komið af vertíðarfiski
„Þetta var bara fínasti túr en aflinn var mest ýsa. Við hófum veiðar út af Skarðsfjörunni og aflinn var bara góður til að byrja með. Síðan leituðum við að ufsa um tíma með litlum árangri. Þá var tekið eitt hol á Höfðanum og síðan endað á Víkinni. Það var fínasta veður allan túrinn. Það er ekki komið mikið af vertíðarfiski á þessar slóðir. Hann er seint á ferðinni enda sjórinn kaldur suður af landinu,“ sagði Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, talaði einnig um að enginn vertíðarbragur væri enn á þeim slóðum sem þeir voru á.
„Við byrjuðum í Meðallandsbugtinni og fengum þar ýsu. Síðan var leitað að ufsa með takmörkuðum árangri eins og oft áður. Þá fengum við þorsk á Ingólfshöfða og í Breiðamerkurdýpi og loks var restað í þorski á Vík og Pétursey. Þetta gekk alveg þokkalega,” sagði Jón.
Bæði skip héldu til veiða á ný í gær.