Frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á útreikningi veiðigjalda var afgreitt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra mun mæla fyrir frumvarpinu í næstu viku. Hún segir í samtali við RÚV að gerðar hafi verið efnislegar breytingar á frumvarpinu til þess að koma til móts við athugasemdir lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja.
„Þessi söngur um að það þurfi meiri tíma og fleiri gögn er orðinn dálítið þreytt lag þegar kemur að því að leiðrétta þessi mál. Ég hafna því algjörlega og það kemur bara í ljós þegar frumvarpið verður lagt fyrir. Það er mjög vel unnið og mjög þétt og góð greinargerð með því. Vissulega og sem betur fer, og það er nú tilgangur samráðs, þá var tekið tillit til ýmissa málefnalegra athugasemda sem komu fram í samráðinu og þess sjást merki í frumvarpinu. Það eru ákveðnar breytingar á því og það er kannski helst að nefna þær sem lúta að ákveðinni hækkun á frítekjumarkinu til að koma til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki,“ sagði ráðherra.
Hún kveðst sannfærð um að málið náist í gegn á þingi. Mikil samstaða sé um málið og mikill stuðningur við það. Háværar raddir hafa verið því andvígar og býst hún við miklum umræðum um það á þingi. „Ég vona að hún verði málefnaleg og þessi leiðrétting náist í gegn,“ sagði Hanna Katrín.