Félagarnir Fannar Ingi Friðþjófsson, Frosti Gnarr og Matthías Emanúel Pétursson hyggjast kanna hvort fýsilegt sé að framleiða mat til neyslu fyrir almenning úr kolmunna.

Um er að ræða verkefnið „Könnun á vannýttri sjávarafurð til manneldis“ og er eitt þeirra 22 verkefna sem hljóta styrk að þessu sinni úr Bárusjóði Matvælasjóðs Íslands. Styrkurinn er  2,9 milljónir króna sem Fannar segir duga fyrir fyrsta fasa.

„Kolmunni er hár skerfur af veiddum fiski í kring um Ísland en er ekki fullnýttur innanlands heldur er settur í fiskimjöl og olíu til útflutnings og hefur aldrei verið notaður sem neysluvara fyrir almenning,“ segir Fannar sem bendir á að um sé að ræða tiltölulega ódýrt hráefni.

Sumir segi kolmunna óætan

„Margir hafa sagt að kolmunni sé óætur en það er alls konar hægt að gera úr honum og við ætlum að kanna möguleikana með hann sem neysluvöru,“ segir Fannar. Neikvæðar umsagnir um kolmunnann slái þá félagana því síður en svo út af laginu.

Fannar Ingi Friðþjófsson.
Fannar Ingi Friðþjófsson.

Sem dæmi um möguleika sem þeir félagar vilja kanna er hvort gera megi úr kolmunnanum fiskibollur, paté, buff eða eitthvað slíkt. „Við þurfum að reyna að þróa vöru sem er að uppistöðu kolmunni og með viðbættum efnum,“ segir hann. Þarna komi Matthías Emanúel sérstaklega til skjalanna sem snjall matreiðslumaður að sögn Fannars.

Hönnunarverkefni í aðra röndina

Stórar hluta verkefnisins segir Fannar einnig munu lúta að því að skoða umbúðir, pakkningar og vörumerki og þess háttar. Sjálfur kveðst Fannar með bakgrunn í nýsköpun, auglýsingagerð og vörumerkjaþróun. Frosti hafi annast hönnun á flestu sem tengdist markaðssókn íslenska fyrirtækisins Niceland Seafood í Bandaríkjunum og sé í dag með bandarísku hönnunarstofuna Wunder Werks sem sé með útibú á Íslandi.

Að sögn Fannars eru þremenningarnir komnir með vilyrði frá stóru sjávarútvegsfyrirtæki um að fá keyptan kolmunna á mjög góðu verði. Þeir séu með aðgang að góðu eldhúsi  þar hægt verði að gera prófanir.

„Það þarf að skoða hvernig hægt er að bragðbæta vöruna, kanna geymsluaðstæður hennar og hvernig hún heldur sér. Þetta hvílir mikið á því að varan sé góð og aðlaðandi í útliti og á það erum við mjög bjartsýnir,“ segir Fannar.

Gaman að hugsa út fyrir boxið

Að sögn Fannars hefur hann meðal annars unnið með Coca Cola og er vörumerkjastjóri Red Bull á Íslandi. „Ég er vanur að taka að mér mjög ólík og skemmtileg verkefni með stór og smá fyrirtæki. Og þetta var eitt af þessum verkefnum sem við sáum enginn hefði gert áður og væri spennandi og gaman að kanna.“

Fannar kveður það hafa kveikt hjá sér áhuga á því að skapa tækifæri í innlendri framleiðslu og matvælagerð er hann bjó til vörumerkið Nordic Wasabi árið 2017 sem byggir á ræktun á wasabi hér á Íslandi.

„Það er ótrúlega gaman að sjá menn hugsa út fyrir boxið í þróun á matvælum á Íslandi. Það er gaman að taka eitthvað sem engum dettur í hug að sé aðlaðandi eða einhvers virði og gera verðmæti úr því. Það er verkefni sem mig dreymir um að setja í gang.“