Út er komin skýrsla með niðurstöðum rannsókna á lífríki Andakílsár frá því að aurflóð fór niður farveginn í maí 2017. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að framvinda lífríkis í Andakílsá hefur verið nokkuð hröð eftir að aurflóðið féll árið 2017, sérstaklega hvað varðar blaðgrænu og hryggleysingja, en einnig hefur fiskstofn árinnar verið að rétta úr kútnum og árið 2020 virðist seiðastofninn hafa náð svipaðri stærð og mældist árið 2010.

Aurflóðið varð þegar vatni úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar var hleypt niður um botnlokur virkjunarinnar. Við það varð rof á botnseti lónsins og gríðarlegt magn af aur barst niður á fiskgenga hluta Andakílsár með alvarlegum afleiðingum fyrir lífríki árinnar. Orka náttúrunnar fól Hafrannsóknastofnun að gera rannsókn á áhrifum atburðarins á lífríki árinnar. Á árunum 2017 til 2020 var því fylgst með lífríki árinnar reglubundið og var áhersla lögð á rannsóknir á magni blaðgrænu, fjölbreytni og þéttleika botnlægra hryggleysingja, og þéttleika og aldurssamsetningu fiskseiða.

Mælingar voru gerðar á efnasamsetningu vatnsins auk þess sem gerðar voru mælingar á þykkt nýja botnsetsins sem þakti farveg árinnar og fylgst með þróun þess með tíma. Athuganir sem gerðar voru fljótlega eftir aurflóðið, sýndu að búsvæði vatnalífvera höfðu raskast mjög mikið. Mjög víða var gamli árbotninn hulinn með 20–60 cm þykku setlagi sem samanstóð af leir, sandi og smágrjóti. Fljótlega eftir aurflóðið, skolaðist fínasta efnið ofan af grófara efni sem borist hafði með aurflóðinu.

Magn blaðgrænu var lágt fyrst eftir atburðinn en jókst smám saman á rannsóknartímabilinu og er það sérstaklega greinilegt þegar haustsýni voru borin saman frá ári til árs. Einnig mátti sjá aukningu á fjölbreytni botnlægra hryggleysingja yfir tímabilið. Um tveimur mánuðum eftir aurflóðið fundust 22 tegundir/hópar hryggleysingja en árið 2020 var fjöldinn orðinn 34. Þéttleiki hryggleysingjanna hafði einnig aukist mikið á tímabilinu en vísbendingar eru um að þéttleikinn hafi ekki náð því ástandi sem ríkti fyrir aurflóðið.

Rannsókn sem gerð var á fiskum yfir sama tímabil sýndi að aurflóðið olli miklum skaða á fiskstofnum í Andakílsá. Sumarið 2017 veiddist lítið sem ekkert af seiðum og árið eftir kom í ljós að klakárgangur frá árinu 2017 hafði misfarist alveg í aurflóðinu. Á árunum 2019 og 2020 veiddist mikið af seiðum (0+ og 1+) og þá var þéttleiki laxaseiða í Andakílsá svipaður og mældist sumarið 2010.