Bæjarráð Snæfellsbæjar samþykkti fyrir stuttu að fela bæjarstjóra að koma á fundi bæjarráðs með forstjóra Hafrannsóknastofnunar til að fá að vita áform stofnunarinnar um framtíð útibús hennar í Ólafsvík. Á þeim fundi kom fram að stofnunin hefði í hyggju að loka útibúi sínu í Ólafsvík um næstu áramót. Sagt er frá þessu í Skessuhorni.

Þar hefur miðillinn eftir Kristni Jónassyni bæjarstjóra að forsvarsmenn Hafró segir að erfiðlega gangi að manna starfsstöðina og fjármagn takmarkað. Því hafi hins vegar verið komið skýrt á framfæri við stofnunina að þetta væri algerlega á skjön við stefnu ríkistjórnarinnar um fjölgun starfa úti á landi svo ekki væri talað um að hætta ríkisstarfsemi þar sem hún er fyrir.

Að sögn bæjarstjórans hefur Hafró fengið um 60 milljónir króna á ári til að reka starfsemina í Ólafsvík. Blóðugt sé að þessir fjármunir hverfi úr samfélaginu og enn verra að sjálfsagt sé að fækka störfum og verkefnum úti á landi.

Starfstöð Hafrannsóknastofnunar í Ólafsvík er við höfnina. Á heimasíðu kemur fram að starfsmenn komi að hinum ýmsu rannsóknarverkefnum Hafró en sérstök áhersla sé lögð á vistkerfi Breiðafjarðar. Meðal verkefna útibúsins er regluleg umhverfisvöktun og rannsóknir á svifþörungum, svifdýrum og fæðuvef auk þess sem starfsmenn taka einnig þátt í gagnasöfnun úr afla sem eru nýtt í stofnmatsráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.