„Báturinn er okkar vonum framar,“ segir Höskuldur Árnason, formaður björgunarsveitarinnar Lífsbjargar og háseti á dragnótarbátnum Sveinbirni Jakobssyni í Ólafsvík, um nýja björgunarskipið Björgu sem sveitin fékk afhent um þarsíðustu helgi.

Höskuldur segir að í Björgu séu öll nýjustu tæki og búnaður, þar á meðal sex fjaðrandi stólar.

„Maður enn að meðtaka hversu öflugt skip þetta er. Hann er ofboðslega hljóðlátur, fer hratt yfir og fer rosalega vel með mann. Við gætum ekki verið ánægðari,“segir Höskuldur. „Ég tók sérstaklega eftir því að maður gerir sér litla grein fyrir hraðanum, hann er það mjúkur og góður í alla staði.“

Fimmtíu ára stökk

Nýju Björgina segir Höskuldur koma í stað 36 ára gamals skips sem smíðað hafi verið eftir hönnun frá því fyrir hálfri öld. „Það má segja að þetta sé fimmtíu ára bæting í hönnun,“ bendir hann á.

Að því er Höskuldur segir er hámarks ganghraði nýju Bjargar 32 hnútar ef farið sé í neyðarsiglingu. Annars sé honum siglt um það bil 18 til 22 hnúta.

„Eins og gamli báturinn er í dag er sennilega hægt að kreista út úr honum svona tólf til þrettán hnúta,“ segir Höskuldur til samanburðar.

Þessi mikli hraðamunur geti skipt sköpum á víðfeðmu starfssvæði björgunarskipsins á Rifi sem nái yfir allanBreiðafjörð norður undir Látrabjarg og inn í um hálfan Faxaflóa til suðurs.

Rosalegar móttökur á Rifi

Viðhöfn var á Rifi er Björg hafði lagt að bryggju eftir ljómandi góða siglingu úr höfuðborginni. Mynd/Aðsend
Viðhöfn var á Rifi er Björg hafði lagt að bryggju eftir ljómandi góða siglingu úr höfuðborginni. Mynd/Aðsend

„Þannig að þetta er gríðarlega stórt svæði sem við þurfum að fara yfir og við það að fá þennan ganghraða, þar sem mínútur skipta oft máli, þá getur hann orðið lífsbjargandi. Þetta er ekki smá stökk fyrir okkur að fá svona skip,“segir Höskuldur.

Sjö félögum úr Lífsbjörgu og tveimur fulltrúum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu sem sigldu með Björgu vestur var vel fagnað við komuna á Rif.

„Ég átti hreinlega ekki von á svona rosalegum móttökum. Það voru einhver hundruð sem mættu, þetta var ótrúlegt. Þegar við sigldum inn var höfnin full af bílum og slökkviliðið sprautaði fyrir okkur sigurboga sem við sigldum í gegnum,“ segir Höskuldur.

Liðsstyrkur við sölu happdrættismiða

Aðspurður segir Höskuldur fjármögnun nýja skipsins ganga afar vel. Til að mynda hafi sveitarfélögin þrjú á Snæfellsnesi lagt fram 30 milljónir króna úr hafnarsjóðum sínum.

„Miðað við svörin sem við fáum frá útgerðunum vilja þær styðja við bakið á okkur og vera með í þessu þótt það sé ekki búið að ganga frá öllum greiðslum. Og það má alls ekki gleyma íbúum allra þriggja sveitarfélaganna,  björgunarsveitinni Klakki og björgunarsveitinni Berserki í Stykkishólmi sem gengu í hús í sínum bæjarfélögum og seldu happdrættismiða þar sem söfnuðust um 4,5 milljónir sem fara upp í skipið. Við þökkum íbúunum og félögum okkar kærlega fyrir aðstoðina. Við erum í skýjunum með allt í kringum þetta,“ segir Höskuldur.

Margir leggja hönd á plóg

Við setningu ráðstefnunnar Björgunar um þarsíðustu helgi var fjórða björgunarskip sem Slysavarnafélagið Landsbjörg lætur smíða í Finnlandi afhent formlega. Forstjóri Kewatec, finnsku skipasmíðastöðvarinnar, afhenti Borghildi Fjólu Kristjánsdóttur, formanni félagsins, björgunarskipið Björg formlega. Tilkynnt var að fjármögnun lægi fyrir sem tryggði að raðsmíðaverkefni félagsins héldi áfram og skrifað var undir samning um smíði fimmta skipsins, sem verður á Höfn í Hornafirði og kemur í stað björgunarskipsins Ingibjargar.

Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson í Brimi lagði verkefninu til 50 milljónir króna og Hvalur hf. sömu upphæð. Sjóvá hafði þegar styrkt félagið um um 142 milljónir króna. Útgerðarfyrirtækið Skinney Þinganes á Höfn hefur stutt afar vel við starf Björgunarfélags Hornafjarðar í gegnum tíðina, og lagt fram rausnarlegt framlag til endurnýjunar björgunarbátsins Ingibjargar. Þá hafa Ísfélagið í Vestmannaeyjum og Rammi hf. á Siglufirði stutt við endurnýjun skipa í sinni heimabyggð.

Nokkuð er í land að verkefnið sé fullfjármagnað og þar með smíði sjötta skipsins, en samtal er í gangi við meðal annars útgerðina á vettvangi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og fleiri stærri fyrirtæki um aðkomu þeirra að fjármögnun skipa sem út af standa.

Er samvinnuverkefni samfélagsins

Þetta breytir öllu fyrir öryggi sjófarenda og vinnuaðstæður fyrir okkar fólk um borð,“ segir Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í tilefni þess að nýja Björg er nú komin á Rif.

Björg er fjórða nýja skipið sem björgunarsveitir hafa fengið afhent á síðustu árum.

„Þessi skip eru miklu betur búin en eldri skipin sem verið er að skipta út, þau eru komin á fertugsaldurinn. Allur aðbúnaður um borð er allt annar. Nýju skipin komast lengra og hraðinn er töluvert meiri og við náum að dekka hafsvæðið í kringum landið mun betur. Þannig að þetta er mikið fagnaðarefni,“ segir Borghildur.

Lykilatriði fyrir sjófarendur

Varðandi fjármögnun á fleiri skipum segir Borghildur unnið að henni af fullum krafti. Þegar Björg var afhent á dögunum var skrifað undir samning um kaup á fimmta skipinu sem fer á Höfn í Hornafirði.

„Við erum með þrettán björgunarskip í kringum landið og erum að horfa í endurnýjun á þeim. Sú endurnýjun er ekki aðeins lykilatriði fyrir okkur heldur líka fyrir öryggi sjófarenda í kringum landið,“ segir Borghildur. Það sé frábært að geta haldið verkefninu gangandi.

„Það hafa margir komið að þessu með okkur; fyrirtæki, útgerðir og ríkið og sveitarfélög. Þetta er bara samvinnuverkefni samfélagsins og allra hagur að klára þetta.“

Tæknilýsing

» 16,9 metrar í heildarlengd

» 5,0 metrar að mestu breidd

» 4,8 tonna dráttargeta

» Hámarksganghraði 34 hnútar

» Vinnuganghraði 32 hnútar (á 90% afköstum með áhöfn og klár í útkall)

» 2x Scania D13 551 kW

» 2x Hamilton HJ403 með ZF gírum

» Hamilton AVX stjórnkerfi

» Humphree „aktívir“ flapsar

» 200 sjómílna farsvið með 15% varabirgðum á 30 hnútum

» Bógskrúfa

» Hálfplanandi

» Fimm vatnsþétt hólf

» Tekur allt að 40 manns í neyð