Það svífur andi nýsköpunar og þekkingarleitar yfir Vestmannaeyjum þessi dægrin. Þekkingarsetur Vestmannaeyja stendur að rannsóknum á veiðum og vinnslu á rauðátu sem og gildruveiðum á þorski. Í Löngu er framleitt kollagen úr fiskroði og verið er að reisa eina stærstu og fullkomnustu landeldisstöð fyrir lax í Viðlagafjöru. Nýjasta viðbótin er fyrirtækið Haf-Afl sem vinnur að undirbúningi og frumhönnun ölduorkugarða við Vestmannaeyjar.

Nýr áfangi í þróun sjávarorku

Haf-Afl er fyrirtæki sem vinnur að nýtingu ölduorku við Íslandsstrendur til að skapa stöðuga og sjálfbæra orkulind fyrir framtíðina. Með fyrsta ölduorkugarðinum við Vestmannaeyjar stefnir Haf-Afl að því að bæta orkuöryggi og styðja við græn orkuskipti á Íslandi. Þetta er nýr áfangi í þróun sjávarorku hérlendis.

Haf-Afl hefur nýlega farið í gegnum viðskiptahraðalinn Hringiðu+ sem er fyrir grænar lausnir, sem hefur umhverfis- og loftslagsmál í brennidepli með fókus á hringrásarhagkerfið. Hringiða+ er hluti af KLAK sem er nýsköpunarmiðstöð.

Samstarf við norskan aðila

Að baki verkefninu standa hjónin Eyrún Stefánsdóttir og Eyvar Geirsson, sem bæði eru frá Vestmannaeyjum, og Dagný Hauksdóttir. Undanfarin ár hafa þau Eyrún og Eyvar búið í Noregi. Þar starfaði Eyvar sem kafari og síðar verkefnisstjóri hjá fyrirtækjum í olíu- og gasvinnslu í Norðursjó. Þau stóðu á ákveðnum tímamótum og vildu snúa sér að verkefnum sem gætu átt þátt í því að bæta heiminn. Eyvar hafði alveg frá unga aldri haft áhuga á öðrum lausnum við framleiðslu á rafmagni. Þau kynntu sér virkjun sjávarfalla og sjávarstrauma og rákust á ferðalagi sínu um þessa heima á lausn sem var á þróunarstigi í Noregi. Efnt var til samstarfs við norskan tækniþróunaraðila um innleiðingu á tækninni. Sá aðili hefur fengið einkaleyfi fyrir tækninni og nú er unnið að rannsóknum sem taka tillit til aðstæðna á Íslandi, m.a. með tilliti til öldulandslags, veiðislóða, hrygningarstöðva, sjófuglalífs, skipasiglingaslóða og fleira.

Haf-Afl hlaut 10,7 milljóna króna styrk frá Lóu, nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina, ásamt tveggja milljóna króna styrk frá SASS árið 2024. Auk þess hafa Eyvar og Eyrún lagt fram eigið fé til verkefnisins. Fyrsti fasi í tilraunaprófunum er að hefjast.

350-500 kW

Orkuverin felast í fljótandi einingum sem lagðar eru fyrir akkerum þar sem hafaldan er hagstæð til orkuframleiðslu. Í einingunum er túrbína en í hafinu sjálfu eru engir hreyfanlegir hlutir. Einingarnar eru festar með fjögurra punkta akkerisfestingum. Á Íslandi eru 22 sveitarfélög á köldum svæðum, í mörgum tilfellum þýðir það takmarkaðir orkuflutningar og viðkvæmir innviðir, en orkuframleiðsla af þessu tagi er talin henta vel sveitarfélögum sem varaorka í samstarfi við aðra orkukosti.

Orkuframleiðslan ræðst af aðstæðum á hafi, þ.e.a.s. öldu. Miðað við prófanir í tönkum er miðað að því að hver virkjunareining framleiði um 350-500 kílóvött af uppsettu afli. Með tíu slíkum orkustöðvum væri því hægt að framleiða 3,5-5 megavött og tengja með köplum inn á kerfið.

Horft til heimsins

Stöðvarnar geta framleitt raforku úr allt niður í 10 cm háar öldur og kjöraðstæður til framleiðslunnar er ölduhæð sem er 2-5 metrar miðað við niðurstöðu kannana. Þegar aldan er komin í ákveðna hæð hættir búnaðurinn sjálfkrafa að framleiða raforku. Haf-Afl hefur nýtt sér mælingar Vegagerðarinnar á ölduhæð vítt og breitt um landið. Tilraunaverkefni á þessu sviði hafa verið sett í gang meðal annars í Portúgal, Ástralíu og Danmörku. Hugmyndin er sú að þróa þessa tækni fyrir íslenskar aðstæður en um leið með það að markmiði að hún nýtist hvar sem er í heiminum. Eyrún segir margan ávinning af þessari tækni, t.a.m. styttri flutningsleiðir raforku og minna umhverfisspor. „Við vonumst til að geta sett upp tilraunavirkjun fyrir lok árs 2026 og geta byrjað að framleiða inn á raforkunetið í framhaldinu. Áætlanir miða að því að orkuverð frá ölduorkuverum verði á pari við orkuverð frá vindorku árið 2029 þegar ráðist verður í frekari stækkun verkefnisins,“ segir Eyrún.